Top Gear-stjóri á gálgafresti

Jeremy Clarkson.
Jeremy Clarkson. mbl.is/BBC

Aðalsprauta hinna vinsælu Top Gear-þátta breska sjónvarpsins (BBC) er nú á síðasta snúningi hjá sjónvarpinu sem fengið hefur nóg af vanhugsuðum yfirlýsingum hans.

Hefur Jeremy Clarkson verið tjáð að hann muni ekki kemba hærurnar í starfi verði honum á ein skyssan enn.

Clarkson hefur hvað eftir annað hneykslað með yfirlýsingum sem þótt hafa bæði illa grundaðar og á köflum í besta falli dónalegar. Hefur vart liðið sá mánuður undanfarin misseri að hann hafi ekki ratað í ógöngur. Sómakæru sjónvarpi þykir siðsamt orðspor sitt meira virði en vinsæll þáttaleiðtogi og sjálfur segir hann í dálki sínum í götublaðinu The Sun að hann verði rekinn við næsta feilspor.

Nýjasta hneykslið snýst um óviðurkvæmilega orðanotkun Clarksons um þeldökkt fólk og í mars sl. olli hann fjaðrafoki með því að brúka í lýsingu orð sem haft er til að niðra konur af asískum uppruna. Þetta tvennt var eiginlega kornið sem fyllti mælinn en af nógu var áður að taka. Þykir einkennandi fyrir hann að tala niður til fólks og af því hefur BBC fengið nóg – og sjálfur gerir Clarkson sér grein fyrir í hvaða aðstæður hann hefur komið sér. „Það er óhjákvæmilegt að dag nokkurn muni einhver einhvers staðar segja að ég hafi misboðið þeim. Og þá verður þetta búið,“ skrifar Clarkson.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina