Mikil tilþrif í Jósepsdalnum

Ljósmynd/Dóri Bjöss

Fjórða umferð Íslandsmeistaramótsins í torfæru var haldin síðastliðinn laugardag í Jósepsdal. Keppnin sjálf var mjög krefjandi og sumar brautirnar voru frekar skuggalegar fyrir keppendur. Allt í allt voru 12 keppendur; 4 götubílar og 8 sérútbúnir.

Áhorfendur létu sig ekki vanta, því um eitt þúsund manns mættu til að fylgjast með. Keppnin var tilþrifamikil og buðu keppendur upp á stökk, veltur og mikla ökuleikni.

Úrslitin úr 4. umferð Íslandsmeistaramótsins

Götubílar
Steingrímur Bjarnason á Strumpinum, 1.910 stig
Eðvald Orri Guðmundsson á Pjakknum, 1.826 stig
Ívar Guðmundsson á Kölska, 1.826 stig
Sævar Már Gunnarsson á Bruce Willys, 1.787 stig

Sérútbúnir bílar
Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum, 1.450 stig
Valdimar Jón Sveinsson á Crash Hard, 1.075 stig
Ingólfur Guðvarðason á Kötlu Turbo Trölli, 941 stig
Elmar Jón Sveinsson á Heimasætunni, 840 stig
Gísli Sighvatsson á Kubb, 827 stig
Svanur Örn Tómasson á Insane, 725 stig
Helgi Gunnarsson á Gærunni, 680 stig
Haukur Einarsson á Taz, 360 stig
Benedikt Helgi Gunnarsson á Hlunknum, 0 stig

Svanur Örn Tómasson fékk tilþrifaverðlaunin í sérútbúnum og Steingrímur Bjarnason í götubílum.

Ingólfur Guðvarðarson nældi sér einnig í titilinn „veltukóngur“' fyrir tvær veltur sem voru frekar harkalegar. Hann var hins vegar ekki á sínum eigin bíl, heldur fékk hann Kötlu Turbo Tröll að láni, þar sem bílinn hans er ekki í keppnishæfu standi.

Á myndbandi neðst í fréttinni sést hvernig stýrishjólið losnaði úr bílnum í einni brautinni, með þeim afleiðingum að bíllinn fór hressilega veltu.

Það var Torfæruklúbbur Suðurlands sem hélt keppnina með góðri hjálp sjálfboðaliða.

Tvær síðustu umferðirnar í Íslandsmótinu fara svo fram á Akureyri, helgina 16. og 17. ágúst næstkomandi. Samhliða því verður keppt á FÍA Nez-meistaramótinu en það mót jafngildir heimsmeistaramóti. Er von á níu ökumönnum frá Noregi til þeirrar keppni og verið er að vinna í því að fá einnig Svía og Finna til að koma. Útlit er því fyrir mikla torfæruveislu á Akureyri þá helgi.

Hér má sjá helstu tilþrif nýliðinnar helgar, en það er myndatökumaðurinn Jakob Cecil Hafsteinsson sem tók myndbandið. Þar fyrir neðan er veltukóngurinn Ingólfur Guðvarðarson á lánsbílnum.

Ljósmynd/Dóri Bjöss
Ljósmynd/Dóri Bjöss
mbl.is