Löggan stal verðmætum á slysstað

Aaron Huntsman.
Aaron Huntsman. Ljósmynd/WVIT

Lögreglumaður hefur játað á sig ólöglega meðferð fjár og að spilla sönnunargögnum með því að stela skartgripum og peningaseðlum af látnum mótorhjólaknapa á slysstað. Hann á yfir höfði sér allt að 18 mánaða fangelsi.

Aaron Huntsman, 45 ára lögreglumaður í Connecticut, varð fyrstur á slysstað á vegi númer 15 við bæinn Fairfield þar sem 49 ára ökumaður mótorhjóls beið bana. Myndavél ofan á mælæaborðinu í bíl hans nam augnablikið þegar hann tekur upp gullkeðju að verðmæti 5.500 dollarar úr blóðpolli við hlið hins látna og 3.700 dollara í seðlum úr vösum hans. 

Er hann tilkynnti fjölskyldu mannsins um slysið kvaðst hann enga peninga hafa séð á honum. Á endanum var hafin rannsókn á málinu eftir að fjölskyldan sagðist sakna ýmissa hluta eftir slysið.

Er yfirmenn hans gengu á hann kvaðst hann hafa sett hálsfestina í vettling í bollastatífi  inni í bílnum og gleymt henni þar. Peningana neitaði hann að vita nokkuð um. Þeir fundust hins vegar síðar undir sætinu í lögreglubíl Huntsmans en hann hélt fast við sinn keip og kvaðst saklaus.

Í millitíðinni hefur hann lýst yfir svonefndri Alford-sekt sem þýðir að hann gengst ekki við ákærunni en fellst á að sönnunargögn saksóknara dugi líklega til að dómari eða dóm til að sakfella hann. Það gerir að verkum að hann heldur ekki uppi vörnum fyrir dómi og fær sjálfkrafa dóm.

Huntsman hafði starfað í ríkislögreglu Connecticut í 19 ár er honum var vikið úr starfi vegna málsins. Dómur verður kveðinn upp í málinu á hendur honum í október og á hann yfir höfði sér hálfs annars árs fangelsi.

mbl.is