Löggan setti hjólreiðahatur sitt á vefinn

Bollaleggingar bollastandsins; skreytimynd á fésbókarsíðu Laura Weintraub.
Bollaleggingar bollastandsins; skreytimynd á fésbókarsíðu Laura Weintraub. Ljósmynd/Facebook

Kona sem er sjálfboðaliði í lögreglusveitum Kaliforníuríkis hefur verið sett í garðyrkjufrí eftir að hafa sett á vefsíðu sína hjá YouTube myndband þar sem hún upplýsir hatur sitt í garð hjólreiðamanna. 

Þótt hin 35 ára gamla lögregla, Laura Weintraub, frá bænum Calabasas hafi tekið upp myndbandið í frítíma sínum og ekki minnst á lögreglustarf sitt í því, hlaut hún enga miskunn hjá yfirvaldi sínu.  

YouTube-síða Weintraub hafði notið nokkurra vinsælda en þar birti hún myndbönd með umsögnum sínum um ýmislegt úr daglegu lífi undir yfirskriftinni „Cup Holders Commentary“ sem leggja mætti út sem „Bollalegginar bollastandsins“. 

Í myndböndunum er hún á ferð á vegum úti í bifreið og er ekkert heilagt. En nýjasta myndbandið varð til þess að henni var vikið ótímabundið úr starfi hjá lögreglunni í Santa Paula. Það sem ekki þótti við hæfi af lögreglumanni voru ummælin: „Ég hata hjólreiðamenn, hvern einn og einasta þeirra.“

Á einum stað spyr hún ökumann bílsins, eiginmann sinn, hversu mikið hún þyrfti að borga honum fyrir að keyra á hjólreiðamann. Myndbandinu lýkur síðan með hryllilegri mynd frá Mexíkó frá árinu 2008 þar sem ölvaður ökumaður ók bíl sínum á hóp hjólreiðamanna. Yfirskrift myndarinnar var: „Eins og þú hafir aldrei látið þér detta þetta í hug . . .“

Einhverjir sendu myndbandið inn á fésbókarsíðu lögreglustöðvarinnar og tóku yfirmenn Weintraub þá til sinna ráða. Hafa þeir sett hana af meðan rannsókn málsins fer fram og það útkljáð, hugsanlega fyrir dómstólum.

Hér að neðan má sjá myndbandið umdeilda:

 

Laura Weintraub í lögreglubúningnum.
Laura Weintraub í lögreglubúningnum. Ljósmynd/Facebook
mbl.is