Megane endurheimtir Norðurslaufumetið

Laurent Hurgon var aðeins 7:54,36 mínútur með hringinn á Megane …
Laurent Hurgon var aðeins 7:54,36 mínútur með hringinn á Megane Renaultsport 275 Trophy-R bílnum. mbl.is/Renault

Renault lætur ekki að sér hæða þegar kappakstur er annars vegar. Þegar sportúgáfan af kunnum fólksbíl, Megane, eða Renault Megane R.S. Trophy-R eins og hann er nefndur, missti metið í annáluðu kappakstursbrautinni gömlu í Nürburgring, Nordschleife, var ekki um annað að ræða af hálfu frönsku bílsmiðjunnar en endurheimta það.

Í mars sl. lét spænski bílsmiðurinn Seat til sín taka og setti met fyrir framdrifna bíla í Norðurslaufunni á Leon Cupra 280. Var hann í sérstakri sportútgáfu með Brembo bremsur, 19 tommu felgur og Michelin Pilot Sport Cup 2 dekk. Lagði hann hringinn að baki á 7:58,4 mínútum og rauf því átta mínútna múrinn í brautinni annáluðu.

Fyrra metið í þessum flokki átti eldri útgáfa af Renaultinum, Megane Renaultsport 265 Trophy, og var það 8:07,97 mínútur, sett í júní árið 2011. Undirvagn hans var af Renault Cup með stífari gormum og dempurum, burðugri jafnvægisstöng og raufuðum bremsudiskum.

Renault var með áform um að gera betur með nýrri útgáfu Megane og lét því frammistöðu Leon Cupra bílsins ekki raska ró sinni um of, þótt ekki yrði franski bílsmiðurinn þess heiðurs aðnjótandi að rjúfa átta mínútna múrinn í „Grænhelju“, eins og brautin er meðal annars kölluð.

Met Spánverjanna stóð ekki lengi því klukkan 7:15 að morgni hinn 15.maí sl. tók franski ökumaðurinn Laurent Hurgon af stað í nýjan methring. Aðeins 7:54,36 mínútum síðar kláraði uppfærður Megane Renaultsport 275 Trophy-R bíllinn hina 21 km löngu braut. Bætti því metið um fjórar sekúndur.

mbl.is