Ekki henta allir skór til aksturs

Skótau sem þetta hentar ekki til aksturs.
Skótau sem þetta hentar ekki til aksturs. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, en nú bendir vátrygingafélagið VÍS á það á heimasíðu sinni, að ekki henti allir skór til aksturs og sumar gerðir þeirra geti haft áhrif á umferðaröryggi - sérstaklega geti töflur verið varasamar.

Um þetta var fjallað á bílavef Morgunblaðsins í fyrrahaust og þar greint frá rannsóknum í Bretlandi sem leiddu í ljós, að töflur voru hættulegri fyrir umferðina en háir hælar.

„Töflur hafa lengi verið vinsælar hjá ungu fólki hér á landi og búast má við að yfir sumartímann bætist fleiri í þann hóp. Þegar ekið er í töflum eða háhælum skóm er töluverð hætta er á að þeir flækist fyrir þegar verið er að færa fætur á milli pedala, þeir fari undir þá eða renni til á þeim,“ segir á vef VÍS.

Þar er því bætt við, að hér á landi eru ekki gerðar kröfur um að ökumenn séu í hentugum skóm við akstur. Þannig væri það þó ekki í öllum löndum og hafi hæstiréttur í Frakklandi til að mynda dæmt konu fyrir að vera í háhæluðum skóm er hún varð völd að slysi þar sem barn lést.

„Skynsemin segir okkur að mikilvægt sé að vera í skóm sem hafa til að mynda ekki áhrif á viðbragðstíma þegar þarf að hemla. Seinkun upp á eina til tvær sekúndur í viðbragði eru allmargir metrar í þegar ekið er t.d. á 90 km hraða.
 
Margir ökumenn spá ekki mikið í það hvort skór séu hentugir til aksturs eða ekki. Full ástæða er þó til að huga að því og má til að mynda hafa auka skó í bílnum til að aksturs ef skór til daglegs brúks eru ekki hentugir. Í raun er gott að taka mið að því að aka í þeim skóm sem maður myndi velja sér ef maður væri að fara í verklegt ökupróf. Þar finnst manni mikið liggja við að allt gangi vel fyrir sig og þannig á það ávallt að vera í umferðinni,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.

mbl.is