Sportbílar sem gleðja ökuþóra

Ánægjulegt er að eiga þess kost að fá sér dísilsportbíl …
Ánægjulegt er að eiga þess kost að fá sér dísilsportbíl sem litlu eyðir. Golf GTD er sprækur en þó ekki sama öskrandi villidýr og Golf GTI. mbl.is/Malín Brand

Sumarið er tíminn þegar ökuþórar leiða hugann að sportbílum. Kannski ekki endilega á dögum þegar það er úrhellisrigning og hann blæs hressilega, heldur frekar á dögum þegar göturnar eru þurrar og jafnvel sést til sólar.

Það er því um að gera að skoða hvaða sportbílar standa kaupendum til boða hjá bílaumboðunum. Listinn er síður en svo tæmandi en að þessu sinni verða sex sportarar teknir til nánari skoðunar: Kia Cee´d GT, Porsche Boxster 2,7 l., Renault Clio R.S., Toyota GT86, VW Golf GTD og VW Golf GTI. Úttektinni verður skipt í tvennt og í dag verða Cee´d GT, Golf GTD og Golf GTI í brennidepli.

Kia Cee´d GT

Hann er lipur og léttur en þó hann sé lipur vantar eilítið upp á kraftinn. Uppgefið tog er 265 Nm en eftir sem áður virðast hestöflin 204 fela sig einhvers staðar vandlega.

Það sem þessi bíll hefur umfram marga aðra í þessum flokki er hefðbundin beinskipting. Ökuþórar virðast margir hverjir eiga erfitt með að sætta sig við sjálfskipta sportbíla með möguleikann á handskiptingu í stýrinu.

Bíllinn er ríkulega búinn og sennilega einna best búinn af þeim sem hér eru til skoðunar. Verðið er svipað og Golf eða um 300.000 krónum lægra. Gaman hefði verið að sjá verð undir fimm milljónum króna.

Kia Cee´d GT er með 1,6 l. vél, beinskiptur, 6 gíra, 204 hestöfl, er 7,4 sek. frá 0 upp í 100, framhjóladrifinn, eyðir 7,4 l/100 km og mengunargildið er 171 g af CO2/km. Verðið er 5.290.777 kr. og er bíllinn seldur hjá Öskju. Í öryggisúttekt EuroNCAP árið 2012 fékk Cee´d fimm öryggisstjörnur sem er fullt hús í þeim flokki.

VW Golf GTD

Það er virkilega ánægjulegt að boðið sé upp á dísilsportbíl eins og GTD. Eyðslutölurnar eru ótrúlega lágar, jafnvel þó verið sé að nota bílinn sem leiktæki.

Munurinn á GTD og hefðbundnum Golf dísil er töluverður, til að mynda er fjöðrunin stífari og bíllinn lægri. Útlitið er vissulega mjög frábrugðið hefðbundnum Golf því þetta er auðvitað sportbíll. Hljóðið í vélinni er fallegt en krafturinn er ekki alveg nógu mikill til að lyfta bílstjóranum á æðra plan ökusælu. Þó er bíllinn mjög skemmtilegur í akstri og togar afar vel.

VW Golf GTD er með 2.0 lítra vél, 184 hestöfl, með 6 gíra DSG sjálfskiptingu, 7,5 sekúndur frá 0 upp í 100 km hraða,. framhjóladrifinn, meðaleyðsla í blönduðum akstri er 4,5 l/100 km. og mengunargildið er 122 g af CO2/km. Bíllinn kostar frá 5.490.000 og er seldur hjá Heklu.

VW Golf fékk fullt hús öryggisstjarna hjá EuroNCAP árið 2012.

VW Golf GTI

Í þessum bíl finnur ökumaðurinn vel að 220 hestöfl eru til staðar. Daginn sem ég fer að kvarta yfir kraftleysi í Golf GTI, hefur gildismat mitt breyst verulega. Þó að bíllinn sé framhjóladrifinn er æðislega skemmtilegt að ýta á nokkra leiktakka í bílnum og spæna svo af stað og finna hvernig maður er með lífið í lúkunum (ef svo má segja) sem halda utan um stýrið. Það má með góðu móti láta bílinn dansa á götunni.

Það er nokkuð gaman að skipta bílnum sjálfur með flipunum á stýrinu en hann skiptir sér líka ljómandi vel sjálfur án þess að maður sé að skipta sér af. Golf GTI og GTD eru mjög líkir í útliti þó svo að innanrýmið sé aðeins ólíkt. GTI-bíllinn er með köflótt sætisáklæði sem hafa verið eins frá 1976 og þó það nú væri að hann fengi að halda þeim fyrir sig.

Vélin í Golf GTI er 2,0 l., hann er með 6 gíra DSG sjálfskiptingu, 220 hestöfl, 6,5 sekúndur úr 0 upp í 100 km hraða, framhjóladrifinn, meðaleyðsla er 6,4 l/100 km og mengunargildið er 148g af CO2/km. Verðið er frá 5.590.000 kr. og eiga öryggisstjörnurnar fimm frá EuroNCAP við um þennan bíl eins og GTD.

malin@mbl.is

Ljóskastararnir setja svip sinn á Cee´d GT sem verður fyrir …
Ljóskastararnir setja svip sinn á Cee´d GT sem verður fyrir bragðið býsna svalur að framan. Að innan er hann sömuleiðis vel hannaður og sportlegur. mbl.is/Malín Brand
GTI og GTD eru rennilegir og ekki spillir fagurt hljóðið …
GTI og GTD eru rennilegir og ekki spillir fagurt hljóðið í þeim bræðrum. mbl.is/Malín Brand
Golf GTD og GTI eru eins í útliti hið ytra …
Golf GTD og GTI eru eins í útliti hið ytra en GTI heldur sínum sérkennum í innanrýminu. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: