Nýr Ford Transit Van

Auðvelt er að hlaða Ford Transit Van en vörurými hans …
Auðvelt er að hlaða Ford Transit Van en vörurými hans er allt að 15,1 rúmmetrar. mbl.is/Ford

Brimborg hefur nýverið frumsýnt Ford Transit Van, nýja útgáfu af Ford Transit sendibílunum, sem eru mest seldu sendibílar Evrópu síðustu 40 árin.

„Þessi gríðarsterka sendibílalína styrkist nú enn meira með nýjum Ford Transit Van. Nýr bíll frá grunni sem kemur í þremur lengdum, með tveim mögulegum lofthæðum og allt að 15,1 rúmmetra flutningsrými,“ segir á vefsetri Brimborgar.

Hægt er að velja drif á framhjólunum einum eða á öllum fjórum hjólum og allt að fimm mismunandi útgáfur af lengd og hæð, með brúttóþyngd frá  3.100 kílóum til 4.700 kg.

Lagt hefur verið upp úr að gera innra rýmið þægilegra og rúmbetra og ytra útlit bílsins er nýtt.

Hjá Ford er talað um að vegna ECOnetic-tæknibúnaðar sé  eldsneytisnotkun bílsins sú skilvirkasta í þessum stærðarflokki og losun koltvíildis minni.  Þar á meðal er sjálfvirkur start-stopp búnaður sem slekkur á vélinni í hægagangi.

Sæti er fyrir tvo hjá ökumanni. Mjóbaks- og hæðarstilling er á ökumannssæti og hiti í öllum sætum.

Til öryggisbúnaðar má nefna ESP stöðugleikastýringu, spólvörn, ABS-hemlakerfi, EBD heflajöfnun og brekkustoð.

Verð Ford Transit Van hjá Brimborg, án virðisaukaskatts, er frá 4,4 milljónum upp í 5,9 milljónir.

Á efra myndskeiðinu hér að neðan  má sjá frá reynsluakstri Ford Transit Van í Belgíu og á því neðra sést að aka má litlum bíl inn í sendibílinn og snúa þar við:

Ford Transit Van er fáanlegur í nokkrum stærðarútgáfum, ýmist með …
Ford Transit Van er fáanlegur í nokkrum stærðarútgáfum, ýmist með drif á framhjólum eða öllum fjórum.
mbl.is