Boris segir dísilolíu stríð á hendur

Borgarstjórinn í London segir dísilbílum stríð á hendur.
Borgarstjórinn í London segir dísilbílum stríð á hendur.

Boris Johnson borgarstjóri í London hefur sagt dísilbílum stríð á hendur en 11 milljónir dísilbíla eru á ferðinni í Bretlandi.

Til að flæma dísilbíla úr London hefur Johnson hækkað gjald fyrir akstur dísilbíla á miðborgarsvæðinu um 10 sterlingspund.  

Herför borgarstjórans réttlætir hann þann veg að með fækkun þeirra í umferðinni verði loftgæði Lundúnaborgar betri. Umhverfissinnar halda því fram, að frá því Boris settist í borgarstjórastólinn árið 2008 hafi  51.000 Lundúnabúar dáið fyrir aldur fram vegna öndunarkvilla sem rekja mætti til loftmengunar í London.

Að dísilolía sé orðin helsti löstur vistkerfisins kemur milljónum Breta á óvart sem á síðustu 10 árum eða svo hafa skipt yfir á dísilbíla í þágu hagkvæmni, skilvirkni og umhverfisbóta. Á fyrri helmingi yfirstandandi árs hafa 643.000 nýir dísilbílar verið nýskráðir en 621.000 bensínbílar. 

Á sama tímabili hafa aðeins selst 23.300 bílar sem brúka annars konar orkugjafa, þar á meðal tvinnbílar og rafbílar. Um síðustu aldamót var aðeins 15% nýrra bíla knúnir dísilvélum og er breytingin því mikil, með hlutdeild dísilbíla nú ríflega 50%. Ein helsta ástæða þess er að undanfarin 12 ár hafa stjórnvöld hvatt til kaupa á dísilbílum, m.a. með afslætti á bílasköttum og skráningargjöldum.

Vandinn sem menn líta til nú, er að koltvíildi (CO2) sem dísilbílar spúa frá sér er ekki eini óþverrinn sem úr pústkerfum þeirra koma. Heldur komi þar og til niturefnasambönd og sótagnir sem dísilvélar gefa frá sér í miklu mæli þótt betrumbættar hafi verið á undanförnum árum, m.a. með betri síum. Eru það sótagnirnar sem ráða gjörðum Boris Johnson nú því þótt þær hafi lítil áhrif á hlýnun andrúmsloftsins geta þær haft skaðleg áhrif á lungu þeirra sem andar þeim ofan í sig.

mbl.is