Sparakstur reynir á heilabúið

Gott er fyrir veskið og umhverfið að stilla vélarsnúningnum í …
Gott er fyrir veskið og umhverfið að stilla vélarsnúningnum í hóf. mbl.is/Styrmir Kári

Huga þarf að nokkrum atriðum, tæknilegum og eðlisfræðilegum, til að árangur sparaksturs verði sýnilegur. Hér verður farið yfir helstu atriðin og í grunninn byggist sparakstur á því að heilabúið sé virkur þátttakandi í akstrinum.

1. Fylgstu með hve þungur fóturinn er á bensíngjöfinni. Stundum stendur maður sig að því að snerta bensínfótstigið í aflíðandi brekku þegar engin þörf er á hjálp við að koma ökutækinu áfram. Það er um að gera að leyfa landslaginu að sjá um það. Ekki má gleyma því að fótabúnaður getur dregið úr tilfinningu ökumanns fyrir gjöfinni. Í gönguskóm og ullarsokkum er næsta víst að tilfinnningin er öðruvísi en í léttum strigaskóm eða inniskóm.

2. Lestu umferðarflæðið og spilaðu með því í stað þess að berjast á móti því með því að gefa í og bremsa til skiptis þegar umferðarþunginn býður ekki upp á það. Þetta margumrædda bil á milli bíla leikur hér lykilhlutverk.

3. Fylgstu með snúningsmælinum. Eins og það getur verið gott að láta vélina snúast hraustlega til að losna við sót og óþverra sem safnast hefur fyrir er líka gott fyrir veskið og umhverfið að stilla snúningnum þess á milli í hóf.

4. Athugaðu reglulega hver loftþrýstingurinn í dekkjunum er. Of lítill þrýstingur býður bæði hættunni heim í umferðinni og eykur eldsneytiseyðsluna. Til dæmis mætti athuga þrýstinginn um hver mánaðamót um leið og maður feginn fyllir á tankinn þegar launin koma inn á reikninginn.

5. Ekki hita eða kæla um of með loftræstingunni. Bæði notar loftkælingin (AC) töluvert af þeirri orku sem bíllinn framleiðir, svo ekki sé minnst á hinn alræmda súkkulaðibræðara (sætishitara) sem oft gleymist í gangi farþegamegin þó enginn sé farþeginn. Það er rétt eins og að borga fyrir vöru sem maður fékk aldrei afhenta. Allt kostar þetta sitt þegar litið er á hlutina í samhengi.

6. Notaðu skriðstillinn sparlega (Cruise Control) og notaðu skrokkinn til að stýra, gefa inn og slá af. Um það snýst nefnilega aksturinn í grunninn.

7. Sláðu af eða gíraðu niður þegar þú nálgast gatnamót með rauðu umferðarljósi. Leiki lánið við þig kemur grænt og þú þarft ekki að bremsa og taka af stað í fyrsta.

8. Hinkraðu aðeins áður en þú setur miðstöðina á fullt í nístingskulda um vetur og bíllinn er kaldur. Eðli málsins samkvæmt kemur ekki heitt loft út um túðurnar á meðan vélin er ísköld. Leyfðu vélinni frekar að nýta orkuna í að hita sig heldur en að blása köldu lofti af öllum krafti.

9. Nýttu loftflæðið sem sórt ökutæki fyrir framan þig brýtur í stað þess að þitt ökutæki geri það. Þetta er kúnst en getur reynst vel í langkeyrslu. Þá heldur ökumaður temmilegri fjarlægð frá stóru ökutæki sem „ryður brautina“ eða klýfur loftið þannig að mótstreymið verður minna og þar af leiðandi verður loftmótstaðan minni. Þetta er dálítil kúnst og krefst góðrar athyglisgáfu bílstjórans.

10. Skafðu eða sópaðu snjóinn af bílnum áður en þú leggur í hann. Það getur verið sárt að standa úti berhentur að berja snjó og klaka af bílnum á köldum vetrarmorgnum. Þá er snjallt að klæða sig í vettlinga og hreinsa sem mest af snjónum af bílnum, ekki bara af bílrúðunum heldur öllum bílnum. Allur þessi snjór vegur eitthvað svo ekki sé minnst á hve hallærislegt það er að fá heilt hlass af snjó á framrúðuna þegar maður loksins kemst á fulla ferð á morgnana. Nei, þá er nú betra og töluvert öruggara að hafa bílinn berstrípaðan heldur en í vetrarbúningi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka