Smíði hætt eftir 56 ár

Hindustan Ambassador hverfur ekki af götunum strax þótt smíðinni hafi …
Hindustan Ambassador hverfur ekki af götunum strax þótt smíðinni hafi verið hætt – í bili.

Sjaldgæft er að bílamódel lifi lengur en 10 til 12 ár; þá hefur þeim verið lagt og önnur komið í staðinn. Eitt módel er þó öllum öðrum eldra en smíði þess hefur nú verið lögð á hilluna eftir 56 ár.

Dæmi eru um að módel hafi lifað talsvert lengur en meðalævi en þessa einstöku ævilengd á hinn indverski Hindustan Ambassador; leigubíll sem breski bílaþátturinn Top Gear útnefndi á sínum tíma besta leigubíl heims; þó meira í gamni en alvöru, að sögn gárunganna.

Ambassador er byggður á hinum breska Morris Oxford III sem smíðaður var á árunum 1956 til 1959. Á þeim tíma óraði engan fyrir því að hann ætti eftir að lifa lengur. Smíði hans var stöðvuð í Indlandi í sumar og þótt fæstir búist við að þráðurinn verði tekinn upp aftur þykir frekar ólíklegt að bíllinn verði skrínlagður í eitt skipti fyrir öll.

Ástæðan fyrir langlífi bílsins er að í áratugi var Indland nánast lokað útlendum bílum. Lítið úrval var fyrir hendi og því naut Ambassadorinn sín þar, en hann er fyrsti fólksbíllinn sem framleiddur er þar. Og vegna lítillar samkeppni var engin þörf fyrir að breyta honum með árunum eða gera á honum úrbætur.

Frá aldamótum hafa erlendir bílaframleiðendur sótt inn á indverska markaðinn og reist þar bílsmiðjur. Það hefur bitnað á Hindustan Ambassador. Í fyrra seldust til að mynda aðeins 2.200 eintök á markaði þar sem keyptar eru 1,8 milljónir nýrra bíla árlega.

Þrátt fyrir að smíðin liggi niðri verður Hindustan Ambassador áfram lengi við lýði á götum Indlands. Bæði þeir sem eru þrátt fyrr allt í fullu fjöri og eins vegna þess hversu algengur hann er sem leigubíll. Í heimaborg hans, Kalkútta, einni og sér voru um síðustu áramót 33.000 Ambassadortaxar á skrá. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: