Stungið í steininn fyrir hraðakstur

Bíllinn seldur, eigandinn í steininn.
Bíllinn seldur, eigandinn í steininn.

Þýskur 59 ára karlmaður mátti horfa á bíl sinn gerðan upptækan fyrir hraðakstur í Sviss. Og það sem meira er, hann á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi fyrir brotið.

Maðurinn var gómaður er hann mældist á 215 km/klst. ferð á hraðbraut í hinum fögru Alpahéruðum Sviss, sem fræg eru fyrir götótta osta og dásamlegt mjólkursúkkulaði.

Og mikil röð og regla er á öllum þáttum hins daglega lífs í Sviss og engin miskunn hjá Magnúsi þegar menn brjóta gegn lögunum. Í ársbyrjun 2013 hertu Svisslendingar á umferðarlögunum til að refsa fremur þeim sem óku í illsku um vegina. Þar á meðal að leggja hald á bíla sé hraðar farið en 200 km/klst. Og fangelsa í allt að fjögur ár ef ekið væri á yfir þeim sama hraða.

Vandi mannsins er sá að hámarkshraði á hraðbrautum í Sviss er 120 km/klst., en hann mældist sem fyrr segir á 215 km/klst. á ferð í kantónunni Aargau á nokkuð öldruðum Mercedes-Benz. Lögreglan handtók hann og færði í varðhald og tók bílinn í sína vörslu. Ökuþórnum var sleppt eftir yfirheyrslur og rannsókn en auk þess að missa bílinn á hann yfir sér sekt fyrir hraðaksturinn. Verður hún væntanlega ákveðin þegar dómur gengur í málinu. Það fé sem fæst fyrir sölu bílsins rennur í ríkiskassann í Sviss en ekki til að lækka fjársekt bílstjórans. Á heimasíðu tímaritsins Spiegel er haft eftir talskonu lögreglunnar í Sviss að vænta megi minnst eins árs fangelsisdóms yfir ökufantinum.

Áður en umferðarlögunum var breytt var hvorki kveðið á um upptöku bíla né lá fangelsisrefsing við alvarlegu hraðakstursbroti. Því slapp Svíi nokkur, einn af „hraðamethöfunum“ í Sviss, betur en núna horfir, en hann ók á rúmlega 290 km/klst. hraða árið 2012. Hann hlaut metsekt fyrir, sem svarar 112 milljónum íslenskra króna, en hélt ofursportbíl sínum, sem var af gerðinni Mercedes SLS AMG, og slapp við fangelsi. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: