XL1 ofurtvinnbíll VW að koma á götuna

XL1 eyðir sama og engu!
XL1 eyðir sama og engu! mbl.is/Volkswagen

Volkswagen hefur afhent fyrsta eintakið af XL1 – ofurtvinnbílnum sem framleiddur verður í aðeins 200 eintökum. Kominn er verðmiði á bílinn í Bretlandi, en þar kostar hann sem svarar um 190 milljónum íslenskra króna.

Volkswagen XL1 er sagður heimsins skilvirkasti tvinnbíll og áður en smíði hans var hafin sagðist VW ætla að smíða hann í takmörkuðu upplagi, 200 eintökum. Koma verður í ljós hvort það breytist síðar og fer líklega eftir undirtektunum.

Í ljósi þessa takmarkaða upplags prísa Bretar sig sæla því að skerfur þeirra verður allt að 30 eintök. Þar hefur hann verið verðsettur á 98.515 sterlingspund. Vandalaust verður að koma bílunum út, því að þótt þeir komi ekki til landsins fyrr en í haust eru eintökin öll þegar frátekin.

Fyrir slíka upphæð má fá margan góðan bílinn en XL1 er ofurbíll í öðrum skilningi en algengast er að talað sé um ofurbíla. Þar kemur til einstaklega lítil eldsneytisnotkun og hönnun sem er frekar í ætt við hugmyndabíl úr fornri stjörnustríðsmynd. En kannski er hér kominn bíllinn sem flestir vildu eiga.

Ástæðan fyrir því er hvað felst í aflrás XL1. Þar er um að ræða 47 hestafla 800 rúmsentímetra dísilvél og 27 hesta rafmótor sem saman skila hestöflunum 74 til afturhjólanna gegnum sjö gíra DSG-gírkassa. Árangurinn er sá að þessi nýi Volkswagen dregur 103 km á aðeins þremur pelum dísilolíu, sem er sama magn og í einni rauðvínsflösku. Losar hann og aðeins 21 g/km af gróðurhúsalofti, sem er fáheyrður árangur.

Þessi skilvirkni er ekki bara að þakka takmörkuðum krafti aflrásarinnar heldur og sleipri lögun bílsins, ef svo mætti segja – viðnámsstuðull yfirbyggingarinnar er aðeins 0,189 – og koltrefjum í byrðingnum sem gera það að verkum að XL1 vegur aðeins 795 kíló. Straumfræðilega getur hann tæpast verið fullkomnari.

Volkswagen XL1 er 3,888 metra langur og 1,665 metra breiður og til lofts nær hann ekki miklu hærra en formúlu-1 bíll eða 1,153 metra. Þessar tölur eru nokkuð fjarri því sem á við um venjulega fólksbíla. Til samanburðar er Volkswagen Polo 3,97 metra langur og 1,682 metra breiður en aftur á móti 30 sentímetrum hærri, eða 1,462 metrar.

Meir að segja hreinræktaður sportbíll eins og Porsche Boxster er 129 millimetrum hærri, eða 1,282 metrar. Því er augljóst að VW XL1 mun hafa sterka nærveru þar sem hann birtist á vegum; bíll framtíðarinnar smíðaður fyrir daginn í dag.

Vegna hinnar hverfandi litlu loftmótstöðu má halda 100 km/klst. stöðugum hraða með aðeins 6,2 kílóvöttum frá aflrásinni. Og með því að brúka rafmótorinn einvörðungu þarf Volkswagen XL1 innan við 0,1 kílóvattstund af orku á hvern ekinn kílómetra.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: