Ökumenn tillitslausir við gangbrautir

Gangbrautarvarsla á Egilsstöðum í morgun.
Gangbrautarvarsla á Egilsstöðum í morgun. Ljósmynd/VÍS

„Tillitsleysi ökumanna gagnvart börnunum er áberandi og allt of margir sem virða ekki rétt þeirra,“ segir tryggingafélagið VÍS um reynslu af gangbrautarvörslu á Egilsstöðum í vikunni.

Í vikunni hafa starfsmenn VÍS á Egilsstöðum sinnt gangbrautarvörslu á Tjarnarbraut við Egilsstaðaskóla og Fagradalsbraut. Mörg börn fara yfir götuna á þessum stöðum og hafa foreldrar áhyggjur af öryggi þeirra enda er bílum oft ekið hratt þarna um og þungaflutningar jafnframt töluverðir á Fagradalsbraut.

Tillitsleysi ökumanna hefur verið áberandi, að sögn VÍS. „Ekki hefur dugað að starfsmenn VÍS séu á staðnum í sýnileikavesti til að aðstoða börnin. Bílstjórar stöðva samt sem áður ekki ökutæki sín til að hleypa vegfarendum yfir götuna. Það var ekki fyrr en lögreglan slóst með í för í morgun að ökumenn sáu að sér,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram, að áberandi margir hafi nota gsm síma við akstur og gildi einu hvort það eru ökumenn þungaflutningabíla eða fólksbíla. Hins vegar hafi verið ánægjulegt að sjá  að af öllum þeim börnum sem hjóluðu í skólann hafa einungis tvö verið án hjálms og var þeim bent á mikilvægi þess að nota hann. 

„Umferðin þyngist mikið þessa dagana og verður fólk að taka mið af því í skipulagningu sinni. Ekki láta stressið hlaupa með sig í gönur heldur halda ró sinni og sýna öðrum vegfarendum, gangandi, hjólandi og akandi, fyllstu tillitssemi,“ segir í frétt VÍS.

mbl.is