Sýni varúð við akstur fram úr hjólandi

Hjólandi vegfarendur eiga sama rétt á að nota vegina og …
Hjólandi vegfarendur eiga sama rétt á að nota vegina og bílstjórar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samgöngustofa segir ástæðu til að minna ökumenn á að gæta sérstakrar varúðar við framúrakstur og þá ekki síst þegar ekið er fram úr hjólandi vegfarendum sem nú er töluvert mikið af á vegum landsins.

„Hjólandi vegfarendur eiga sama rétt á að nota vegina og bílstjórar og því er mikilvægt og sanngjarnt að þeim sé sýnd tillitssemi. Bílstjórar þurfa hafa í huga að þeir bera mikla ábyrgð þar sem bíllinn er eðli málsins samkvæmt mun hættulegri en reiðhjólið.

Tillitssemin þarf vitanlega að vera gagnkvæm og eru hjólreiðamenn hvattir til aðgæslu og tillitssemi. Þá eru þeir beðnir um að staðsetja sig þannig á eða við akbraut að þeir sjáist vel og að auðvelt og öruggt reynist að fara fram úr þeim,“ segir Samgöngustofa.

mbl.is