Ölvaður á 246 km/klst á þjóðvegi

Er ekki betra að fara hægar og njóta fegurðar sem …
Er ekki betra að fara hægar og njóta fegurðar sem þessarar við ána Luru (Loire).

Franskur iðnaðarmaður á eftir að þurfa punga út stórfé vegna hraðasektar sem verður aukinheldur hærri þar sem hann reyndist þéttrakur undir stýri.

Bifreið mannsins mældist á 246 km/klst hraða á þjóðvegi milli bæjanna Vendôme og Villeromain í héraðinu Loir-et-Cher í fyrrakvöld. Þar er hámarkshraði 110 km og því hóf  lögreglan þegar í stað eftirför. 

Áfengisfnyk lagði úr öflugri þýskri bifreið hins 44 ára iðnaðarmanns og við mælingu reyndist áfengismagn í blóði meira en tvöfalt umfram leyfileg mörk, eða 1,20 g/líter.

Ökufanturinn var handtekinn á staðnum og stungið í gæsluvarðhald. Hann var og sviptur ökuréttindum á staðnum og  bifreið hans gerð upptæk. Héraðslögreglan sagðist harma að sitja uppi með þetta hraðamet á vegum sýslunnar. Maðurinn gaf þá skýringu á flýtinum að hann hafi verið orðinn of seinn til fundar við nokkra viðskiptavini sína.  

mbl.is