Chevrolet framleiðir Lödu Sport

Þetta er það sem næstu kynslóðir munu kynnast í staðinn …
Þetta er það sem næstu kynslóðir munu kynnast í staðinn fyrir Lada Sport.

Hver hefði átt von á því fyrir þrjátíu árum eða svo að Lada Sport yrði einn góðan veðurdag framleidd undir merkjum Chevrolet? En það er nú samt það sem er að gerast, því Chevrolet Niva mun leysa Lada Niva af hólmi eftir tvö ár.

Lada Niva, sem Íslendingar þekkja sem Lada Sport, hefur verið framleidd af rússneska bílasmiðnum AvtoVAZ frá 1977. Bíllinn hefur lítið breyst í gegnum tíðina en með samstarfi AvtoVAZ og Chevrolet mun líta dagsins ljós eins konar nútíma útfærsla af þessum seiga jeppa.

Bíllinn var kynntur á bílasýningunni í Mosku í síðustu viku og var þar kynntur á grófum dekkjum, með kastara, togspili og æði gerðarlegri toppgrind (en eins og allir nema Íslendingar vita er góð toppgrind forsenda þess að jeppar drífi eitthvað). 

Chevrolet Niva, sem á að rata á almennan markað í Rússlandi árið 2016, er ögn lengri en Chevrolet Trax og búinn 134 hestafla 1,8 lítra bensínvél. Sú mun vera ættuð frá Peugeot (þetta endar í mjög alþjóðlegum bíl) og vera boltuð við 5 gíra kassa sem tengist svo fjórhjóladrifi.

Ekki stendur til að bjóða Chevrolet Niva á öðrum mörkuðum en í Rússlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina