Lamborghini Huracán keppir við þotu

Gírhausarnir í Top Gear-sjónvarpsþættinum hafa fært mannkyninu margar gjafir. Og er þá ekki bara átt við orðskrúð Jeremy Clarksons. Eitt af því eftirminnilegra er ný tegund kappaksturs, þar sem bílum og þotum er att saman.

Hugmyndin er sú að bíllinn og þotan byrji á sama stað og fari í sömu átt. Bíllinn þarf svo að fara flugbrautina á enda, snúa við og koma til baka yfir ráslínuna, en um leið og þotan kemst á flugtakshraða þýtur hún beint upp í loftið, snýr við, stefnir beint til jarðar og tekur svo vinkilbeygju og yfir ráslínuna sömuleiðis.

Þessi tegund kapp„aksturs“ hefur svo verið öpuð eftir af öðrum, við ólíklegustu tækifæri. Það er allt í lagi að taka strax fram að þoturnar fara iðulega með sigur af hólmi, en engu að síður er gaman að sjá nýjustu keppnina af þessum toga. Þar er það Lamborghini Huracán sem keppir við Sukhoi Su-27, rússneska orrustuþotu. 

Njótum.

mbl.is