Systkinasigur í Rallý Reykjavík

Daníel og Ásta Sigurðarbörn, sigurvegarar keppninnar á leið um Djúpavatn.
Daníel og Ásta Sigurðarbörn, sigurvegarar keppninnar á leið um Djúpavatn. Ljósmynd/Magnús Þórðarson

Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn settu tóninn strax á fyrstu leið Reykjavíkurrallsins sem lá um Hvaleyrarvatn, stutt leið en systkinin náðu langbesta tímanum og tóku forustu sem þau létu aldrei af hendi og fóru með sigur af hólmi.

Ólánið hefur elt þau í allt sumar og er Reykjavíkurrallið fyrsta keppnin sem þau ljúka. Það hafði legið í loftinu að þau myndu klára í efsta sæti þegar bíllinn dygði í endamark.

Í öðru sæti, eftir mjög góðan og öruggan akstur, urðu þeir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson. Þeir eru nýliðar í toppbaráttunni en hafa svo sannarlega komið á óvart og slegið í gegn. Annað sætið dugði þeim til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Þótt bíllinn hafi verið miklu öflugri en sá sem þeir óku áður varð það aldrei til þess að þeir keyrðu fram úr sér og gerðu mistök.

Þess má geta að Baldur hefur keppt þónokkur ár í ralli en ólíkt öllum öðrum keppendum hefur hann aldrei fallið úr keppni, það eitt og sér er mikið afrek og segir mikið um Baldur, hvernig hann undirbýr sig og hagar sínum akstri. Þess má geta að Baldur er hálfsextugur en ljóst að þessi orkubolti á langan tíma eftir undir stýri rallbíls, segir Þórður Bragason, einn af forsprökkum Reykjavíkurrallsins.

Íslandsmeistarar síðasta árs, þeir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson, höfnuðu í fjórða sæti. Þeirra keppni var ekki áfallalaus og enn eru álitamál sem dómnefnd þarf að kljást við.

Baldur Arnar Hlöðversson og Guðni Freyr Ómarsson tryggðu sér Íslandsmeistaratitil í flokki aflminni bíla. Þeir óku af öryggi og þegar keppinautunum fækkaði einum af öðrum var ljóst að þeir þyrftu einungis að klára til að hampa titli sem þeir og gerðu.

Um rallið og úrslit þess í heild má annars lesa á heimasíðu Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur.

mbl.is