Suzuki Vitara endurborinn

Suzuki Vitara snýr aftur eftir langa fjarveru.
Suzuki Vitara snýr aftur eftir langa fjarveru. mbl.is/Suzuki

Suzuki Vitara snýr aftur sem smájeppi en hann verður frumsýndur á Parísarsýningunni eftir mánuð. Hann er væntanlegur á götuna næsta sumar.

Hann verður fimm dyra og gæti orðið keppinautur bíla á borð við Nissan Juke og Renault Captur. Hér er um að ræða hugmyndabílinn iV-4 sem Suzuki sýndi á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra.

Er margt úr hönnun iV-4 að finna í Vitara, meðal annars áberandi brot niður síðurnar, ávöl aðalljósin með umgjörð sem rennur saman við grillið á vélarhúsinu.

Hinn endurborni Suzuki Vitara verður fáanlegur með nýjasta ALLGRIP-fjórdrifsbúnaði Suzuki og kaupendur stendur til boða úrval lítt losandi bensín- og dísilvéla til að knýja hann.

Val kaupenda er þó ekki bundið við skilvirkni og getu utanvegar eingöngu heldur geta þeir og valið um fjölbreyttar litasamsetningar og skraddarasaumaðar útgáfur við hæfi hvers og eins.

Lítið hefur annars verið látið uppi um þennan nýja smájeppa frá Suzuki, þess verður að bíða til Parísarsýningarinnar í byrjun október.

Í samtali við bílablað Morgunblaðsins í byrjun ágúst vék Úlfar Hinriksson, forstjóri Suzuki á Íslandi, að þessum væntanlega jepplingi og sagði: „Hann á eflaust eftir að vekja mikla athygli er hann verður kynntur í endanlegri mynd á Parísarsýningunni í október. Hann verður mjög spennandi í útliti og sparneytnin mun koma á óvart. Hagkvæmnin verður styrkur þessa bíls.“

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: