Toyota boðar keppinaut Nissan Juke

Toyota C-HR kemur á götuna eftir um ár.
Toyota C-HR kemur á götuna eftir um ár. mbl.is/Toyota

Toyota boðar hugmyndabíl sem sýndur verður á Parísarsýningunni í byrjun október. Þar er á ferð bíll sem hugsaður er sem keppinautur borgarjeppans Nissan Juke.

Stefnt mun vera að því, að bíllinn, sem á þessu stigi er nefndur Toyota C-HR, verði kominn á götuna innan eins árs, eða síðsumars 2015. Hefur Toyota gefið afar litlar upplýsingar um hann en sent frá sér mynd af bíl í feluklæðum sem gæti gefið hugmynd um útlínur smájeppans.

Í tilkynningu með myndinni segir, að í C-HR-hugmyndabílnum fari saman kröftug hönnun, geðfelld akstursreynsla og tvíorkuaflrás.

Myndin gefur til kynna bogadregnar línur sem boða fráhvarf frá hinu dæmigerða kassalagi sem verið hefur á jeppum og jepplingum Toyota.

Talið er að í C-HR-jepplingnum sé sama 1,5 lítra VVT-i tvíorkukerfið og knýr Yaris-tvinnbílinn. Þó þykir 1,8 lítra VVT-i kerfið úr Toyota Auris og Prius Yaris allt eins koma til greina, eða þá í aflmeiri útgáfu bílsins.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: