Ölvuðum konum í umferðinni fjölgar

Skynsamt fólk lætur bíllykilinn óhreyfðan eftir að hafa neytt áfengis.
Skynsamt fólk lætur bíllykilinn óhreyfðan eftir að hafa neytt áfengis.

Í nýrri breskri rannsóknarskýrslu er hvatt til þess að leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna verði lækkað enn frekar frá því sem nú er. Ástæðan er aukinn ölvunarakstur og þá ekki síst meðal kvenna.

Nærfellt tvöfalt fleiri konur aka undir áhrifum áfengis nú til dags en árið 1998. Í hittifyrra, 2012, voru konur 17% ökumanna sem dæmdir voru fyrir ölvunarakstur en árið 1998 var hlutfallið einungis 9%. Ennfremur sagðist sjötta hver kona telja sig hafa ekið undir áhrifum síðasta árið þótt ekki kæmist það upp.

Þegar tölfræðin var leiðrétt miðað við heildarakstur bentu útreikningar til að meiri líkur væru á að konur ækju undir áhrifum eftir þrítugt en karlar.

Í rannsóknarskýrslunni er lagt til að reynt verði að höfða til kvenna með aukinni upplýsingagjöf til að efla meðvitund þeirra um hættur af völdum neyslu áfengis fyrir akstur.

Ennfremur er lagt til að leyfilegt áfengismagn í blóði verði lækkað úr 0,8 prómillum í 0,5 prómill. Segir að núverandi viðmið sé ákveðið út frá efnaskiptum karlmanna og alltof hátt, en alls staðar annars staðar í Evrópu er það 0,5 prómill. Efnaskipti í kvenlíkamanum séu allt öðruvísi og gætu konur því farið miklu fyrr upp fyrir mörkin þar sem áfengi þynnist minna í blóði þeirra en karla. Í rannsókninni sagðist helmingur kvenna ekki vita hver leyfileg vínandamörk væru og 12% töldu sig þola meira áfengi en „meðalkonan“.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: