Bera sig aumlega undan „Bardabunga“

Hinn 17. mars sl. var bílum með númerum sem enda …
Hinn 17. mars sl. var bílum með númerum sem enda á jöfnum tölum bannaður akstur á Parísarsvæðinu vegna mengunar. Ekki fékkst slíkt bann endurtekið í dag.

Ryk frá eldgosinu í Holuhrauni er meðal mengunar sem hrellir Parísarbúa þessa dagana og af þeim sökum fór borgarstjórnin fram á það við stjórnvöld að fá leyfi til að takmarka bílaumferð í borgarlandinu frá og með í dag.

Borgarstjóranum, Önnu Hidalgo, varð þó ekki að ósk sinni því ríkisstjórnin hafnaði beiðni hennar um að bílar fengju aðeins að aka annan hvern dag vegna mengunarinnar.  Sömuleiðis vildi hún banna flutningabílum og rútum alveg að koma inn í borgarlandið þessa dagana vegna mengunarinnar.

Bruno Julliard, hægrihönd borgarstjórans, segir við blaðið Le Figaro, að ryk frá „íslenska eldfjallinu Bardabunga“ hafi borist inn yfir París í byrjun vikunnar og aukið á agnamengunina í borgarloftinu. Það staðfestir stofnunin Airparif sem fylgist með loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu og sinnir mengunarmælingum.

Bárðarbungu verður þó ekki einni kennt um loftmengunina í bæjum og borgum Frakklands. Þar í landi hefur verið einmuna veðurblíða vikum saman sem á sinn þátt í því hvernig komið er. Í París fór agnamenungin upp fyrir hættumörk í byrjun vikunnar, nam meira en 50 míkrógrömmum PM10 á rúmmetra lofts.

Agnamengun fór einnig upp fyrir þau mörk á Bretaníuskaganum vestast í Frakklandi í síðustu viku. Ófrískum konum, öldruðum, kornabörnum og fólki með öndunar- eða hjartakvilla var ráðlagt að halda sig sem mest innandyra.

Og Airparif stofnunin fyrrnefnda spáir áframhaldi mengun yfir varúðarmörkum á Parísarsvæðinu. Segir þó að eldstöðvunum íslensku verði ekki lengur kennt um því loftstraumar hafi breyst og beini gosrykinu og gufunum ekki lengur inn yfir Frakklandi.

mbl.is