Níu í slag um titilinn Bíll ársins á Íslandi

Renault Capture er einn bílanna sem komnir eru í úrslit …
Renault Capture er einn bílanna sem komnir eru í úrslit um titilinn Bíll ársins 2015 á Íslandi.

Níu bílar keppa um titlinn Bíll ársins á Íslandi 2015 að þessu sinni, en í gær varð ljóst hvaða bílar komast í úrslit.

Keppt er í þremur flokkum; minni fjölskyldubílum, stærri fjölskyldubílum og loks jeppum og jepplingum.

Í flokki minni fjölskyldubíla voru það Opel Adam, Toyota Aygo og Renault Capture sem komust áfram.

Í flokki stærri fjölskyldubíla komust áfram VW Golf GTD, Peugeot 308 og Mercedes-Benz C-lína.

Í síðasta flokknum, flokki jeppa og jepplinga verður keppnin spennandi því að þar keppir jepplingurinn Nissan Qashqai við lúxusjeppana BMW X5 og Porsche Macan.

Tekið er tillit til margra þátta í valinu, eins og hagkvæmni, verðs, gæða, akstursánægju og fleira. Styrktaraðilar keppninnar í ár eru Frumherji og Bílgreinasambandið. Blaðamenn BÍBB (Bandalag Íslenskra Bílablaðamanna) munu taka bílana til kostana um helgina en valið sjálft verður tilkynnt við hátíðlega athöfn á fimmtudaginn 2. október.

Stýrið eftirsótta sem fylgir titlinum Bíll ársins á Íslandi.
Stýrið eftirsótta sem fylgir titlinum Bíll ársins á Íslandi.
mbl.is