312.000 kr. í bensín

Bandarísk meðalfjölskylda ver sem svarar 312.000 krónum í bensín á …
Bandarísk meðalfjölskylda ver sem svarar 312.000 krónum í bensín á ári. mbl.is/Golli

Bandarísk meðalfjölskylda varði 2.600 dollurum til bensínkaupa árið 2013, að því er bandaríska hagstofan hefur reiknað út. Jafngildir það 312.000 króna.

Þessi útgjöld hafa hækkað ört síðustu misseri vestan hafs, eins og annað sem viðvíkur rekstri heimilisbílsins.

Og til marks um hækkunina segir hagstofan hana vera 111% frá árinu 2002. Eða með öðrum orðum hefur bensínkostnaðurinn aukist um 8% að meðaltali á ári frá 2002.

Verðið er sagt endurspegla verðhækkanir á alþjóðlegum olíumarkaði en ekki vera til marks um aukna bensínnotkun heimilanna. 

Árið 2002 kostaði olíufatið 24,96 dollara en hafði hækkað í 96,85 dollara árið 2008. Á sama tímabili urðu engar breytingar á akstri heimilisbíla meðaltalsfjölskyldunnar. Í fyrra, 2013, var fatið komið í 108 dollara.

Eins og jafnan vill vera hefur verðhækkunin komið harðast niður á tekjulitlum neytendum. Bensínútgjöld þeirra nema um 13% af tekjum en hjá tekjumestu neytendunum er hlutfallið aðeins 2,5%.

Í stóru landi frjálsrar samkeppni eins og Bandaríkjunum borga menn svo misjafnlega mikið fyrir bensínlítrann. Á Hawaii sleppa menn hvað best því þar var meðalreikningurinn fyrir bensín 882 dollarar síðastliðið ár, en 3.916 dollarar í Norður-Dakóta. Er bensínkostnaðurinn hlutfallslega hæstur í dreifbýli í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna en lægstur í mesta þéttbýlinu. 

mbl.is