Barnabílstólarnir löðrandi í bakteríum

Hreinlæti virðist ábótavant þegar bílstólar fyrir börn eru annars vegar.
Hreinlæti virðist ábótavant þegar bílstólar fyrir börn eru annars vegar.

Ný rannsókn bendir til þess að hreinlæti sé ábótavant þegar bílstólar fyrir börn eru annars vegar. Jafnvel að í þeim sé að finna tvöfalt það magn af hættulegum bakteríum og sýklum sem er að finna í klósettskál.

Að þessari óskemmtilegu niðurstöðu komust rannsakendur við Birmingham-háskólann í Englandi núna í haust. Tóku þeir sýni með því að strjúka barnabílstóla í 20 bílum og klósettskálar á jafnmörgum heimilum með eyrnapinnum.

Niðurstaðan var sú að 100 sýklar mældust á hvern fersentimetra í bílstólunum miðað við 50 sýkla á jafnstórum bletti í klósettskál. Meðal örveira sem fundust voru bakteríur sem valdið geta meðal annars niðurgangsveiki og salmonellu.

Í rannsókn á bílunum sjálfum kom í ljós að í þeim er að finna hættulegri bakteríur og sveppategundir en á heimilum. Óhreinustu blettirnir í bílunum voru gólfin undir fótum ökumanns og farþega. Þar var að finna þúsundir örveira á fersentimetra.

Til stuðnings rannsókninni framkvæmdi dekkjafyrirtækið Continental könnun meðal 2.000 bílstjóra. Helmingur þeirra var að jafnaði á ferðinni á bíl þar sem ægði saman alls kyns rusli. Tíundi hver gekkst við því að draslið hefði ýmist valdið árekstri eða að legið hefði við slysi vegna þess, til dæmis með því að gosflaska eða -dós hefði smokrað sér undir bremsufetilinn.

Í ljós kom einnig, að tveir þriðju bílstjóranna voru í engu meðvitaðir um hættuna sem heilsu fólks stafar af skítugum bíl. Fimmti hver sagðist aðeins þrífa bílinn að innanverðu einu sinni á ári – venjulega áður en farið var með hann á verkstæði til að dytta að einhverju.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: