Stjórna bílnum með hreyfingu augnanna

Hið nýstárlega mælaborð visteon, HMeye.
Hið nýstárlega mælaborð visteon, HMeye.

Bandaríski íhlutasmiðurinn Visteon hefur þróað mælaborð sem gerir ökumönnum kleift að stjórna ýmsum aðgerðum með augna- og höfuðhreyfingum.

HMeye hefur hugmynd þessi verið nefnd en að mestu er nýjung þessi á hugmyndastigi enn sem komið er.

Hún mun gera ökumönnum kleift að hafa hendurnar öllum stundum á stýrinu en kveikja á sama tíma á útvarpinu, loftræstingunni og jafnvel gervihnattaleiðsögutækjum með augunum einum saman.

Litlar myndavélar fylgjast með hreyfingum augna og höfuðs en slíkar myndavélar eru þegar í nokkrum bílmódelum til að mæla eftirtekt og athygli ökumanna undir stýri, svo sem í Lexus, svo einhverjar bílgerðir séu nefndar. Tæknin er því ekki eins framúrstefnuleg og fjarlæg og virðast kann.

„Starandi augnaráðsneminn og stýrishreyfingar gefa hraða svörun,“ segir yfirmaður nýsköpunardeildar, einn af uppfinningamönnum Visteon.

Og bætir við, að nýja mælaborðið geti stuðlað að auknu umferðaröryggi með því að lágmarka í viðbrögðum sínum augnhreyfingar af veginum.

En hvað finnst ökumönnum um þessa boðuðu augnstýringartækni? Visteon segist hafa kynnt útgáfu af þessari hugmynd sinni sérstöku úrtaki fólks. Niðurstaðan var sú, að 81% sögðu stýringarnar auðveldar í notkun og 78% sögðu þennan nýjan búnað skemmtilegan viðfangs.

Þekkt er að stórum hópi ökumanna hefur þótt öll innbyggð kerfi í bílum ofurflókin í notkun og kvartað stórum undan því. Hér er kannski að koma fram lausn sem léttir þeim bæði lund og aksturinn.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina