Frumsýna rafbílinn Volkswagen e-Golf

Akstur e-Golf er hljóðlátur og vistvænn.
Akstur e-Golf er hljóðlátur og vistvænn.

Rafbíllinn Volkswagen e-Golf verður frumsýndur hjá Heklu á morgun, laugardag. Volkswagen með þróun e-Golf er að gera rafbíla að valkosti fyrir hinn almenna bíleiganda.

Í tilkynningu um frumsýninguna segir, að e-Golf bjóði nýjustu tæknina í kunnuglegum umbúðum, því e-Golf er ekki eingöngu rafbíll, heldur einnig allt annað sem Golf hefur upp á að bjóða með 40 ára þróun Golf. „Þannig gerir e-Golf eigandi engar málamiðlanir á kröfur um þægindi, öryggi og tæknilausnir,“ segir í tilkynningunni.

E-Golf er niðurstaða margra ára umfangsmikillar vinnu Volkswagen, sem hefur hannað algerlega nýja línu rafmótora sem eru léttir, mjög öflugir og einstaklega hljóðlátir.

Helstu breytingarnar sem e-Golf eigandi upplifir í akstri er fullkomnlega hljóðlátur akstur í bíl með góða snerpu og aðeins einum drifgír. Rafhlaðan í bílnum er sérlega endingargóð en Volkswagen veitir 8 ára ábyrgð á rafhlöðunni sem er hönnuð til að taka sem minnst pláss.

Akstursdrægni bílsins er allt að 190 km, sem gerir e-Golf að bíl sem hentar akstursþörfum langflestra, enda er meðalakstur Íslendinga undir 40km á dag.

Viðtökur e-Golf hafa verið einstaklega góðar í rafbílavæddasta landi heims Noregi, en þar reiknar Volkswagen með sölu 8.000 bíla á næsta ári. Eins og í Noregi eru rafbílakaup einstaklega hagkvæm á Íslandi vegna mjög hagstæðs raforkuverðs, tollflokkakerfis og undanþágu frá virðisaukaskatti. „Því má búast við að e-Golf muni höfða til margra sem vilja sameina umhverfisvænan og hagkvæman akstur í glæsilega hönnuðum og öruggum bíl,“ segir í tilkynningu frá Heklu.

Frumsýningin stendur yfir frá klukkan 12 til 16 í húsakynnum Heklu að Laugavegi 170-174. Meðan á sýningunni stendur verður boðið upp á reynsluakstur á e-Golf.

Akstur e-Golf er hljóðlátur og vistvænn.
Akstur e-Golf er hljóðlátur og vistvænn.
mbl.is