Amerískir bílar í uppáhaldi síðustu 40 árin

Árni G. Sigurðsson við bílaflotann við heimili sitt í Kópavogi. …
Árni G. Sigurðsson við bílaflotann við heimili sitt í Kópavogi. Eftir 40 ár í fluginu nýtur Árni að nostra við bílana. mbl.is/Malín Brand

Þau okkar sem flutt hafa bíla til landsins vita að það getur verið býsna snúið í fyrsta skiptið. Alls kyns pappírsvinna fylgir því svo ekki sé minnst á að finna út hvar gera skal hagstæðustu kaupin og koma ökutækinu í heilu lagi til landsins.

Þá er nú gott að geta leitað til þeirra sem reynsluna hafa. Flugstjórinn Árni G. Sigurðsson fór á eftirlaun fyrir skemmstu eftir 40 ára starf hjá Icelandair. Hann er einn þeirra sem búa að mikilli reynslu í bílainnflutningi og hefur aðstoðað margan manninn við að koma draumabílnum sínum til landsins í gegnum árin.

Námsárin í Bandaríkjunum

Árið 1966 urðu straumhvörf í lífi Akureyringsins Árna, þá 17 ára, þegar hann fór til Bandaríkjanna í nám. Það var þá sem bíladellan tók sér bólfestu í honum og við þá dellu mun hann eflaust aldrei losna. „Bíladellan var svo sem til fyrir þann tíma en þarna úti kom hún fyrst fyrir alvöru því þar voru skólafélagar mínir, unglingarnir, allir á bílum í skóla sem aðeins broddborgarar á Íslandi gátu látið sig dreyma um,“ segir Árni. Skólafélagarnir mættu á stórum amerískum köggum, af ýmsum árgerðum allt frá 1950 til 1966. Sjálfur gat Árni ekki leyft sér að dreyma um að taka í kaggana. „Það var skilyrt fyrir þá sem voru í svona skiptiprógrammi að þeir máttu ekki keyra. Það höfðu orðið dauðaslys á unglingum sem komu frá Evrópu til Bandaríkjanna og því var bara sett bann á það,“ segir Árni sem lét af þeim sökum ekki freistast en fékk þó að fara með í ófáa bíltúra með félögunum. „Bensínið kostaði þrjátíu sent gallonið. Svo hentu allir dollar í púkkið og þá var bara rúntað heilu kvöldin,“ segir Árni. Á þeim árum veltu menn því lítið fyrir sér hver eyðslan væri.

Faðir Árna var atvinnubílstjóri og iðulega á flottum bílum við aksturinn og lengst af amerískum. Bíladelluna og bílaáhugann erfði Árni frá föður sínum og sömu sögu er að segja af bræðrum hans tveimur. Þeir eiga hvor þrjá ameríska bíla, bæði nýlega og fornbíla.

Dodge Diplomat sá flottasti

Þó svo að Árni mætti ekki aka þegar hann var í námi í Bandaríkjunum átti það sannarlega eftir að breytast fáeinum árum síðar. Tíðar ferðir til Bandaríkjanna buðu upp á akstur á ýmsum amerískum drekum. Sjálfur hefur Árni átt bíl frá því hann var sautján ára. Sá fyrsti var VW en fyrsti „flotti“ bíllinn, eins og hann orðar það sjálfur, var Dodge Diplomat '78. Árni var skynsamur og keypti bílinn ekki fyrr en hann hafði búið fjölskyldu sinni gott heimili. Og bílinn á hann enn. Árni hefur ekki átt sérlega marga bíla um ævina, því bílana sem hann hefur eignast, rétt eins og Dodge Diplomat, hefur hann farið vel með og átt lengi. Hann á þá nokkra í dag og hefur ekki í hyggju að stokka neitt upp í bílaflotanum.

Amerískur floti í Kópavogi

Auk Diplomatsins á Árni Ford Bronco frá 1996, sem er síðasta gerðin af stórum Bronco sem var framleidd. Því næst ber að nefna fjórhjóladrifinn Chrysler 300 station með 5,7 lítra vél af árgerð 2007. Í slíkum flota hlýtur að leynast einn pallbíll og jú, Dodge Ram á Árni líka. Sá er árgerð 2008 og er 2500-dísilbíll. Sportbíl á hann líka, allsérstakan, en það er Chrysler Crossfire SRT. Þeir voru framleiddir á árunum 2005-2007 en þessi var skráður 2010. „Sá bíll var keyptur hér heima eftir hrun. Þá voru margir bílar til sölu, bæði sem fólk hafði lent í erfiðleikum með og sem bankarnir voru með. Ég sá þennan á bílasölu á frekar lágu verði og freistaðist til að kaupa hann.“ Bílinn notar Árni eingöngu á sumrin enda veturinn sjaldnast tími sportbílanna. Hestöflin 400 njóta sín betur að sumarlagi. Crossfire er með túrbóvél frá Mercedes-Benz. Bíllinn er í raun svipaður Benz SLK 350 nema fyrir bandarískan markað. Tæknin og vélarbúnaðurinn kemur frá Benz og segir Árni að bíllinn sé ótrúlega skemmtilegur. Það er mikil prýði að bílunum því Árni leggur mikið upp úr að halda flotanum í góðu lagi og iðulega eru bílarnir fínir og fægðir fyrir framan húsið í Kópavoginum.

Skemmtilegustu bílarnir

Það er með mikilli eftirvæntingu sem blaðamaður spyr hver sé nú skemmtilegasti bíll sem Árni hefur ekið. Hann þarf ekki að hugsa sig um eitt andartak. „Fínasti bíllinn sem þægilegast er að aka er sá gamli,“ segir Árni og er þar að tala um 1978-árgerðina af Dodge Diplomat sem stendur úti á bílastæðinu. „Hann er léttur í stýri, enda með vökvastýri. Bíllinn er bara original eins og hann var í gamla daga,“ segir Árni sem segist vera svo lánsamur að eiga sína draumabíla og vera ánægður með það sem hann á. „En það er alltaf gaman þegar ég er að hjálpa mönnum að flytja þetta inn að keyra þetta smáspotta og það er nú alltaf gaman að nýjum bílum. Cherokee er til dæmis alveg glæsilegur bíll og alveg ný tækni í þeim,“ segir Árni sem hefur verið trúr amerísku bílunum þótt hann hafi á árunum 1986-1989 flutt inn nokkra bíla frá Þýskalandi þegar tollar lækkuðu. „Þá var gífurleg endurnýjunarþörf í þjóðfélaginu og við fluttum inn nokkuð af lítið notuðum bílum sem höfðu verið bílaleigubílar úti. Það var mjög vinsælt,“ segir Árni G. Sigurðsson sem er sáttur við að vera hættur að fljúga því nú eiga bílarnir athygli hans óskipta. malin@mbl.is

Chrysler Crossfire SRT 6 Turbo er sá sneggsti í flotanum …
Chrysler Crossfire SRT 6 Turbo er sá sneggsti í flotanum en hann er um 4,5 sekúndur frá 0 upp í 100. Bílarnir voru framleiddir frá 2005 -2007 en fáir eru til hér á landi. LjósmyndÁrni G. Sigurðsson
Dodge Diplomat af árgerð 1978 er þægilegasti bíllinn af þeim …
Dodge Diplomat af árgerð 1978 er þægilegasti bíllinn af þeim sem Árni hefur átt. Bílinn á hann enn. Ljósmynd/Árni G. Sigurðsson
Sending af bílum á leið frá Bandaríkjunum til Íslands í …
Sending af bílum á leið frá Bandaríkjunum til Íslands í júlí 1973. Árni hefur aðstoðað marga við innflutning. Ljósmynd/Árni G. Sigurðsson
Sjö bíla sending frá Bandaríkjunum til Íslands í nóvember 1978.
Sjö bíla sending frá Bandaríkjunum til Íslands í nóvember 1978. Ljósmynd/Árni G. Sigurðsson
Ram 2500 dísil af árgerð 2008 hefur reynst Árna vel …
Ram 2500 dísil af árgerð 2008 hefur reynst Árna vel við ýmsa flutninga. Ljósmynd/Árni G. Sigurðsson
Fyrsti bíllinn var VW Bjalla. Myndin er tekin á Hólmahálsi …
Fyrsti bíllinn var VW Bjalla. Myndin er tekin á Hólmahálsi árið 1966 og sést til Eskifjarðar. Bílinn eignaðist Árni 17 ára gamall. Ljósmynd/Árni G. Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: