Nissan setur þróun Lundúnataxa á ís

Nissan NV200 leigubíllinn sem hefur verið í þróun fyrir London.
Nissan NV200 leigubíllinn sem hefur verið í þróun fyrir London.

Nissan hefur sett þróun nýs leigubíls fyrir London ís um sinn þar sem ljóst er að þeir munu að óbreyttu ekki uppfylla strangar kröfur um losun gróðurhúsalofts í borginni (ULEZ).

Heimildir herma að hönnunar og þróunarvinna við bílana muni liggja niðri þar til niðurstaða fæst í hvort ULEZ-ákvæðin ná fram að ganga. Leigubíll Nissan er búinn bensínvél og mun ekki  að óbreyttu uppfylla kröfur til aksturs í miðborginni verði nýju losunarreglurnar samþykktar. 

Þetta þykir breskum miðlum slæmar fréttir og ganga gegn áformum um að losa borgina við gamla úrelta svarta leigubíla sína, en frá þeim stafar talsverð mengun.

Þá fylgir fregnum að einungis sé um að kenna eigin tillögum borgarstjórans, Boris Johnson, sem lagt hefur verið til að allir leigubílar borgarinnar verði mengunarfríir árið 2018.

Nissanbíllinn er byggður á NV200 fjölnotabílnum og í honum er 1,6 lítra bensínvél sem áföst er hálfsjálfvirkjum CVT-gírkassa. Ekki er hægt að laga þá aflrás að hinum boðuðu kröfum Johnsons. Bílar Nissan eru þó mun sparneytnari og miklu mengunarminni en núverandi TX4 dísilbílarnir.

NV200 leigubílar eru þegar í notkun í borgum sem New York og Barcelona.

Þess má geta að Nissan hefur þegar hafið framleiðslu á rafknúinni útgáfu af bílnum, eða e-NV200. Uppfylla þeir og gott betur nýju kröfurnar sem Boris borgarstjóri reynir að koma í gegn. 

mbl.is