Frakkar ætla að útrýma dísilbílum

Vinum dísilbílsins fækkar jafnt og þétt.
Vinum dísilbílsins fækkar jafnt og þétt.

Franska stjórnin hefur sagt dísilknúnum einkabílnum stríð á hendur til að stuðla að minni loftmengun. Er hátt reitt til höggs þar sem um 80% franskra bíla eru búnir dísilvél.

Um er að ræða nýtt flokkunarkerfi á dísilbílum sem kemur til framkvæmda frá áramótum, að sögn forsætisráðherrans, Manuel Valls.

Með því er ætlunin að draga fram í dagsljósið helstu mengunarbílana og ryðja þeim jafnt og þétt af frönskum vegum. Meðal annars með því að hætta smátt og smátt sölu á dísilolíu til einkabílsins.

Með flokkunarkerfinu nýja gefst, að sögn ráðherrans, einstökum bæjar- og sveitastjórnum tækifæri til að takmarka aðgang helstu mengunarbílanna á yfirráðasvæði þeirra. Jafnframt mætti nota flokkunina til að leyfa ökumönnum vistvænstu bílanna að leggja ókeypis í bílastæði og aka í rein sem hingað til hefur verið frátekin fyrir strætisvagna.

„Við höfum lengi dregið taum dísilbílsins í Frakklandi. Það voru mistök og við munum jafnt og þétta vinda ofan af því,“ segir Valls. Verða opinberar álögur á dísilolíu auknar en hún hefur lengi verið skattlögð mun vægar en bensín.

Hann bætti því við að reynt yrði að hvetja neytendur til kaupa á vistvænni bílakaupa með niðurgreiðslum og skattalegum ívilnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina