Yfir 60 milljónir bíla innkallaðar

Höfuðstöðvar General Motors í Detroit.
Höfuðstöðvar General Motors í Detroit. mbl.is/afp

Innkallanir á bílum í Bandaríkjunum á árinu vegna öryggisgalla hefur slegið öll met. Á nýliðnum laugardegi nam fjöldinn 60,5 milljónum. Aldrei áður hafa 60 milljónir bíla verið innkallaðar á einu og sama árinu og meðaltalið hefur verið 16,1 bíla á ári frá 2004.

Og reyndar er gamla metið helmingi lægra en það hljóðaði upp á 30,8 milljónir bíla sem innkallaðar voru árið 2004, að sögn þjóðvegaöryggisstofnunar Bandaríkjanna (NHTSA). Nýja metið á eftir að breytast til áramóta – til hækkunar – vegna stöðugra viðbóta við innkallanirnar.

Að langmestu leyti eru innkallanirnar vegna kapphlaups við að afstýra fleiri dauðsföllum vegna gallaðra kveikjurofa í bílum General Motors og skipta út gölluðum líknarbelgjum frá fyrirtækinu Takata Corporation.

„Ég að held við eigum ekki eftir að upplifa annan eins fjölda innkallana sem þennan um langa framtíð,“ segir Neil Steinkamp hjá tryggingagreiningafyrirtækinu Stout Risius Ross. Talið er að innkallanir verði þó áfram talsvert umfram það sem menn hafa áður átt að venjast. Kreppan vegna líknarbelgja Takata heldur áfram að vaxa og í framhaldi af letilegum viðbrögðum við kveikjulásagallanum hjá GM hefur NHTSA tekið sér tak og þrýst af hörku á bílsmiði um að bregðast miklu skjótar við með innköllunum þegar einhverjir gallar koma í ljós. Beitir stofnunin nú þeirri hótun að stefna þeim fyrir dóm og sekta þá ella um 35 milljónir dollara.

„Bílsmiðir kæra sig ekki um að verða sakaðir um að draga lappirnar og þeir bregðast mjög hratt við,“ segir Michelle Krebs, sérfræðingur hjá greiningafyrirtækinu Autotrader.com. „Við eigum eftir að sjá heilmikið af innköllunum til viðbótar vegna þess að bílar eru orðnir svo flóknir og mikið um að mismunandi bílsmiðir deili með sér pörtum.“

Innköllunarflóðið hefur þó ekki latt neytendur til bílkaupa á árinu. Frá áramótum til nóvemberloka nam aukningin 5,4%, að sögn Autodata Corp., og allt stefnir í mestu heildarsölu frá árinu 2006.

General Motors eitt og sér hefur innkallað tæplega 27 milljónir fólks- og pallbíla á árinu, sem er met fyrir einn og sama bílsmiðinn. Tíu mismunandi orsakir liggja að baki jafn margra innkallana sem náðu til meira en milljón bíla hver, að sögn NHTSA. Að minnsta kosti 42 dauðsföll og 58 alvarleg meiðsl hafa verið rakin til gallaðra kveikjulása í minni bílum frá GM.

Honda, þriðji stærsti bílsmiður Japans, hefur innkallað 5,4 milljónir bíla til að skipta út líknarbelgjum frá Takata. Ótímabærar sprengingar belgjanna tengjast að minnsta kosti fjórum dauðsföllum í Bandaríkjunum og alvarlegra meiðsla á rúmlega hundrað einstaklingum. Rúmlega átta milljónir bíla hafa verið innkallaðar vegna gallans í líknarbelgjum Takata. Aðrar innkallanir þar sem meira en milljón bílar kom við sögu vörðuðu stýrisbúnað, skriðstilli, vélar og sætisbelti.

Fiat Chrysler-samsteypan sagði fyrir helgi, að hún myndi verða við tilmælum NHTSA og láta innköllun sína vegna líknarbelgjanna ná til Bandaríkjanna allra en ekki bara heitu og rakamiklu svæða landsins þar sem flest óhöppin hafa orðið. Það mun ná til 2,9 milljóna bíla til viðbótar við það sem að framan segir þegar sú aðgerð verður færð í gagnabanka NHTSA.

General Motors segir kostnað sinn vegna kveikjulásgallans hafi numið 2,7 milljörðum dollara fyrstu níu mánuði ársins, sem markar upphaf nýrra tíma í baráttunni gegn öryggisgöllum í bílum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: