Fann Mustanginn eftir 28 ára leit

Lynda Alinas sest inn í Mustanginn sinn eftir 28 ára …
Lynda Alinas sest inn í Mustanginn sinn eftir 28 ára aðskilnað.

Skiljanlegt er þegar hálffimmtug kona í Kaliforníu segist aldrei hafa fengið betri jólagjöf er hún endurheimti bíl sem stolið var fyrir 28 árum. Þetta var enginn venjulegur bíll, heldur viðargrænn Mustang.

Bílinn keypti Lynda Alsip aðeins 17 ára gömul og til þess brúkaði hún sumarhýruna fyrir vinnu í kjörbúð í borginni Salinas sumarið 1984. Borgaði fyrir hann 800 dollara en bíllinn var jafnaldri hennar, af árgerðinni 1967. Á hann fékk hún númeraplötuna „LYNDA67“ sem skírskotað gat hvort tveggja til fæðingarárs hennar og smíðisárs bílsins.

Mustangsins góða naut hún í aðeins tvö ár því árið 1986 var honum stolið af bílastæði við heimili hennar. Þrátt fyrir umfangsmikla leit spurðist aldrei neitt framar til hans. Ekki fyrr en maður, sem einnig á heima í Salinas, reyndi að skrá hann hjá bifreiðaskrá borgarinnar.

Skráningin gekk ekki greiðlega fyrir sig því þótt maðurinn segðist hafa keypt bílinn árið 1991 fundust engin gögn um það hjá bifreiðaskránni. Spurðist hún því fyrir um þetta eintak hjá ríkisvegalögreglu Kaliforníu. Eftir talsvert grúsk grófu starfsmenn þess sig niður á upplýsingar um bílinn. Nánar tiltekið á skýrslu um stuld bíls sem reyndist sá hinn sami og reynt var að skrá upp á nýtt.

Lögreglumenn bönkuðu upp hjá manninum og viti menn, þar var viðargræni Mustanginn geymdur í bílskúr hans. Og þeim þótti ljóst, að þar hefði hann staðið óhreyfður allar götur frá árinu 1991. Í gang fór rannsókn sem tók þrjá mánuði uns öllum forsendum fyrir því að Lynda Alsip fengi bíl sinn aftur var fullnægt. Var henni afhentur hann tveimur dögum fyrir jól, 22. desember. Það var tilfinningaþrungin stund. Frú Alsip, sem nú er tveggja barna móðir, ætlar að láta yfirhala Mustanginn og er þess að vænta að eftir það verði hann glerfínn.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina