Óblíð veðraföll ýta undir jeppakaup

Augljóst samband virðist á milli leiðindaveðurs og kaupa á jeppum.
Augljóst samband virðist á milli leiðindaveðurs og kaupa á jeppum. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Er beint samband milli hryssingsveðurs – grimmdarkulda – og tilhneigingar til kaupa á jeppum? Svo virðist vera samkvæmt athugunum vefsíðunnar motors.co.uk þótt ekki hafi hún endilega verið alltof vísindaleg.

Vefritið komst að því að eftirspurn eftir jeppum hefði aukist áberandi í kjölfar fyrstu snjókomu vetrarins, næturfrosta og viðvarana Veðurstofunnar um nístandi vetrarkulda.

Motors.co.uk er bílasöluvefur og þar jókst leit að jeppum um 35% milli helga eftir að fyrsta skítaveðrið með sínu kuldakasti reið yfir. Á einstökum landsvæðum Bretlands voru leitirnar hlutfallslega flestar í Skotlandi, norðausturhluta Englands og í Miðlöndunum sem er í samræmi við það hvar veturinn hefur verið hvað harðastur.

Langmest voru skoðaðar auglýsingar um Nissan Qashqai-jeppa, eða tvöfalt fleiri en helgina áður. Í öðru sæti varð Land Rover Freelander með 38%. Í sætum þrjú til 10 urðu, í þessari röð: Honda CR-V, Land Rover Discovery, Toyota RAV4, BMW X5, Land Rover Range Rover Sport, Ford Kuga, Land Rover Range Rover og Kia Sportage.

Og í sætum 11-20 urðu, í þessari röð: Volkswagen Tiguan, Land Rover Range Rover Evoque, Mercedes-Benz M-Class, Nissan X-Trail, BMW X3, Suzuki Grand Vitara, Hyundai ix35, Volvo XC60, Kia Sorento og Volvo XC90.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: