Eldri kjósa Suzuki og Subaru

Suzuki Grand Vitara.
Suzuki Grand Vitara. mbl.is/Suzuki

Getur verið að einhver bein tengsl séu á milli aldurs bílkaupenda og einstakra bílategunda.

Svo virðist vera, ef marka má greiningu norsku umferðarstofunnar (OFV) á bílkaupum þar í landi í fyrra, 2014.

Alls keyptu 75.796 einstaklingar nýjan fólksbíl í Noregi í fyrra en auk þess keyptu fyrirtæki 68.406 slíka bíla. Sjötíu prósent kaupenda voru karlar en aðeins 30% bílanna voru skráðir á konur.

Samkvæmt útreikningum OFV kaupir eldra fólk helst Suzuki og Subaru en þeir yngri Tesla og Mini. Þá sker sig úr að konur eru helst fyrir Fiat og Mini. Þessi tvö bílmerki voru þau einu þar sem meirihluti bílanna voru skráðir á konur. Í tilviki Fiat 56% og 51% fyrir Mini.

Lægst var hlutfall kvenna sem kaupenda Jaguarbíla, eða 6%, og Tesla, 11%.

Meðaltalsaldur norskra bílkaupenda í fyrra var hlutfallslega hár, eða 54 ára. Lægstur var aldurinn á kaupendum Tesla og Mini, eða 46 og 48 ára. Nissan er þar í þriðja sæti með 49 ára meðaltalsaldur kaupenda.

Á hinum enda kvarðans er að finna kaupendur Suzuki og Subaru. Í tilviki þess fyrrnefnda var meðalaldurinn 64 ára og 62 ár hjá kaupendum Subaru. Kaupendur Hyundai voru að meðaltali 60 ára en fyrir öll önnur bílmerki lá meðaltalsaldurinn á bilinu 50 til 59 år.

Þegar litið er til lúxusbíla voru kaupendur BMW að jafnaði yngstir, eða 51 árs að meðaltali. Hjá Audi var aldurinn 55 ár og 58 hjá kaupendum Mercedesbíla.

Söluhæsta bílmerkið í Noregi á nýliðnu ári var Volkswagen og mældust kaupendur þeirra 52 ára að meðaltali. Einu ári yngri voru kaupendur Skoda.

mbl.is

Bloggað um fréttina