Forstjóri Volkswagen, Martin Winterkorn, og Heinz-Jakob Neusser, yfirmaður hönnunardeildar VW, …
Forstjóri Volkswagen, Martin Winterkorn, og Heinz-Jakob Neusser, yfirmaður hönnunardeildar VW, við bíl ársins á Genfarsýningunni í dag.

Volkswagen Passat hefur verið valinn bíll ársins 2015 í Evrópu. Þar með hreppir VW þennan titil í þriðja sinn á sex árum.

Í öðru sæti í kjörinu varð Citroen C4 Cactus og Mercedes C class í þriðja sæti en í lokalotu kjörsins hafði 58 manna dómnefnd bílablaðamanna frá 22 löndum Evrópu úr sjö bílum að velja. Auk framangreindra voru það Renault Twingo, BMW 2-Series Active Tourer, Ford Mondeo og Nissan Qashqai.

Passat hlaut alls 340 stig gegn 248 sem komu í hlut C4 Cactus og 221 stigi C-class. Ford Mondeo hafnaði í fjórða sæti með 203 stig, Nissan Qashqai í fimmta með 160 stig, BMW 2 Series Active Tourer í sjötta með 154 stig og lestina rak Renault Twingo með 124 stig.

Viðurkenningin „Evrópubíll ársins“ hefur verið veitt árlega frá 1964. Volkswagen hreppti viðurkenninguna 2013 með Golf en í fyrra varð Peugeot 308 fyrir valinu. Tilkynnt var um valið í Genf í dag, en þar hefst árleg bílasýning á morgun.

Eins og áður segir skipa 58 bílablaðamenn dómnefndina en þeir eru frá 22 löndum og starfa við helstu fjölmiðla er fjalla um bíla. Skipað er í nefndina í hlutfalli við stærð bílamarkaðarins í hverju landi og stöðu bílsmiða. Þannig eiga Þýskalandi, Bretland, Frakkland, Ítalía og Spánn sex sæti hvert fyrir sig í dómnefndinni, eða rúmlega helminginn. Hin löndin 17 deila með sér 28 sætum.

mbl.is