Fórnarlömb velgengni sinnar

Dodge Charger SRT Hellcat; vinsælli en honum sjálfum reyndist hollt.
Dodge Charger SRT Hellcat; vinsælli en honum sjálfum reyndist hollt.

Þekkt er að menn geti orðið fórnarlömb frægðar sinnar og getu en að bílar skuli falla í þann flokk er líklegra fátíðara.

Engu að síður má hafa þau orð um bílana Challenger SRT Hellcat og Charger SRT Hellcat frá Dodge. Nú á bílsmiður sá í standandi vandræðum vegna roksölu á þessu bílum og hefur neyðst til að stöðva söluna.

Upphaflega voru þessir bílar eiginlega bara draumar en Dodge ákvað að prófa og skellti þeim í framleiðslu. Eftirspurnin kom bílsmiðnum algjörlega í opna skjöldu. Og varð fljótt svo mikil að útilokað var að anna henni.

Þannig gerði Dodge sér ekki vonir um að meira en í mesta lagi 5.000 eintök af þessum bílum myndu seljast árlega. Reyndin varð hins vegar sú, að innan við ári eftir að salan hófst stóðu rúmlega 9.000 eintök á pöntunarlistanum.

Til að afhendingartími drægist ekki úr hófi ákvað Dodge því að stöðva söluna. Alla vega meðan smíðað er upp í fyrirliggjandi seldar pantanir.

Tala má um hinn tvennra dyra Challenger og fernra dyra Charger sem bandarísk hormónatröll hvað krafta varðar – og þeir munu seint teljast til vistvænna bíla. Enda áttu þetta eiginlega aldrei að vera nema hugmyndabílar með 6,2 lítra V9-vélum og forþjöppu sem skilaði 717 hestöflum og 815 Newtonmetra togi til afturöxulsins. En ákveðið var að prófa hvort undirtektir yrðu nægar og því hófst smíði Challenger SRT Hellcat og Charger SRT Hellcat í fyrra.

Vítiskettir þessir eru með uppgefinn hámarkshraða sem 333 km/klst. Mun vélin í þeim vera öflugasta fjöldaframleidda V8-bílavél heims. Ónefnd ástæða hinnar miklu eftirspurnar er að bílarnir þykja á góðu verði. Aðeins þarf að reiða fram tæpa 60.000 dollara fyrir Challenger SRT Hellcat og fyrir 3.000 dollara til viðbótar má fá eintak af Charger SRT Hellcat.

agas@mbl.is

 

Dodge Challenger SRT Hellcat.
Dodge Challenger SRT Hellcat.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: