Tesla eykur litaval fyrir Model S

Svart er algengasti liturinn á rafbílnum Tesla Model S. Nú …
Svart er algengasti liturinn á rafbílnum Tesla Model S. Nú bætist afbrigðið tinnusvart við, ásamt litunum hafbláum og hlýgráum.

Tesla hefur bætt við þremur litasamsetningum fyrir rafbílinn Model S en með því fæst hann í 10 mismunandi litarútgáfum. Hafblár, tinnusvartur og hlýgrár heita nýju litirnir.

Stílisti hjá lakkfyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu bílalakks, segir að svarti liturinn hafi alltaf haft sérstaka skírskotun til lúxuss.

Fyrirtækið, PPG Industries, birtir árlega lista yfir vinsælustu bílalitina og hvert stefnir í þeim efnum. Frá árinu 2010 hefur hvíti liturinn verið vinsælastur fyrir allar stærðir bíla, en það ár tók hann við af silfurgráum lit. Sá hvíti er sagður hafa yfir sér áru hátækni framtíðarinnar en hann er nú allsráðandi eins og á níunda áratugnum. Á þeim tíunda var hins vegar dökkgrænn litur vinsælastur.

Í Norður-Ameríku eru 24% lúxusbíla hvít, í öðru sæti er svart eða á 22% bíla og í því þriðja silfurgrátt sem er að finna á 20% bíla.

Í Evrópu drottnar svartur aftur á móti í lúxusgeiranum því annar hver bíll er í þeim lit. Í öðru sæti er hvíti liturinn, á 16% bíla og silfurgrái á 10%.

Tesla hefur ekki viljað veita upplýsingar um hlutföll hinna ýmsu lita á bílum sínum. Sannleikurinn virðist þó sá, að mattur svartur sé algengasti litur Model S rafbílanna. Í öðru sæti er grásanseraður litur, í þriðja sæti blásanseraður, í fjórða sæti rauður litur og perluhvítt í fimmta.

Í Norður-Ameríku eru hins vegar svart og hvítt algengustu litir sportbíla, hvor með 20% hlutfall. Þriðji algengasti liturinn er rauður sem er að finna á 17% sportbíla, og blár er í fjórða sæti á 12% bíla. Evrópumenn vilja aftur á móti hvíta sportbíla (27%) og í öðru sæti er svartur litur, eða á 19% bílanna.

Stílistinn fyrrnefndi segir neytendur frekar íhaldssama þegar þeir kaupa bíla og vilji helst hafa þá í hlutlausum litum. Hún spáir því hins vegar að þetta muni breytast á næstu misserum og mun meira af blásanseruðum bílum muni líta dagsins ljós.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: