Allt á hjólum í þriðja sinn

20.000 manns sóttu bílasýninguna Allt á hjólum árið 2013 og …
20.000 manns sóttu bílasýninguna Allt á hjólum árið 2013 og von er á enn fleiri gestum í Fífuna í ár. mbl.is/Styrmir Kári

Það stendur mikið til í Fífunni en þar verður opnuð bílasýningin Allt á hjólum næstkomandi laugardag. Sýningin var fyrst haldin 2011, þá 2013 og nú líður að þriðju sýningunni.

Það er hugur í mönnum enda árferðið að skána, segir Sigurður Kr. Björnsson sýningarstjóri.

„Í kjölfar hrunsins, árið 2011, fóru menn hjá Bílgreinasambandinu að huga að því hvernig hægt væri að lyfta daufri grein upp á aðeins hærra plan og þá kom þessi hugmynd upp að endurvekja hinar vinsælu bílasýningar Bílgreinasambandsins sem naut jafnan mikilla vinsælda hér á árum áður. Sýningin tókst prýðilega í fyrsta skiptið og enn betur árið 2013 þegar um 20.000 manns sóttu hana heim. Við væntum þess að enn fleiri komi á sýninguna í ár vegna þess að hagur landans hefur heldur vænkast frá því á árunum í kjölfar hrunsins og markaðurinn hefur um leið tekið aðeins við sér. Svo er vert að benda á það að aðgangur verður ókeypis á Allt á hjólum 2015. Það er nokkuð sem við leggjum mikla áherslu á.“

Frumsýningar og sértilboð

Sigurður bætir því við að á sýningunni gefist fólki kostur á að kynna sér allt það nýjasta í bílabransanum hérlendis. „Það verða frumsýningar á nýjum módelum þarna, ný þjónusta kynnt í fyrsta sinn, ýmis sértilboð í gangi og er þá fátt eitt talið upp.“ Sigurður bendir einnig á að helsti munurinn á sýningunni í ár og þeim fyrri er að í þetta sinn verður áherslan lögð á bílana. Við vorum áður með ferða- og fellihýsi í bland en svo verður ekki að þessu sinni. Engu að síður verður ýmis útivistarbúnaður kynntur ásamt aukahlutum sem tengjast útiveru, en að megninu til verður þetta sýning sem leggur áherslu á bílinn.“

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: