Fer Nürburgring undir 7 mínútum

Það verður seint sagt um Lamborghini að bílarnir séu ekki …
Það verður seint sagt um Lamborghini að bílarnir séu ekki rennilegir, Hinn glænýi Aventador Superveloce er þar engin undantekning, háþróað tæki til hraðaksturs sem býður eðliskröftunum byrginn með ofurafli sínu.

Það telst til allnokkurra tíðinda í heimi bílaáhugafólks þegar ítalski ofursportbílaframleiðandinn Lamborghini sendir frá sér nýtt útspil.

Ekki að undra því útspilin eru iðulega knúin glórulausu afli um leið og aðbúnaður og frágangur er allur afburðagóður. Það á svo sannarlega við um nýjasta meðlim þessar tilkomumiklu bílafjölskyldu en hann nefnist Aventador LP 750-4 Superveloce.

Til að reyna aflið var bíllinn látinn reyna sig við eina erfiðustu og mest krefjandi prufuakstursbraut Evrópu, hina 21 kílómetra löngu Nürburgring. Skemmst er frá því að segja að nýliðinn stóð sig með mikilli prýði og kláraði hina hlykkjóttu og hæðóttu braut, sem gárungar í bílabransanum nefna gjarna Die Grüne Hölle eða Græna vítið, á innan við 7 mínútum. Tíminn var nánar tiltekið 6:59.73 mínútur og það setur hann í mikinn öndvegishóp aflmikilla ofurbíla. Árangurinn mun eflaust gleðja hraðafíkna kaupendur sem hugsa sér gott til glóðarinnar. Þeir þurfa engu að síður að hafa hraðar hendur því einungis 600 stykki verða framleidd af þessum hraðskreiða ofurbíl. Þeir sem verða svo stálheppnir að eiga kost á því að kaupa eintak þurfa að reiða fram 493.069 Bandaríkjadali, eða sem nemur 65.370.000 íslenskum króna.

Hraðametið á Nürburgring meðal framleiðslubíla heilt yfir á svo aftur Porsche 918 Spyder og er það einungis 2 sekúndum betri tími en hjá Aventador Superveloce.

jonagnar@mbl.is

Að vanda eru vængjahurðir á nýliðanum enda væri glapræði að …
Að vanda eru vængjahurðir á nýliðanum enda væri glapræði að fórna þessu sérkenni á Lamborghini. Athygliverður í kyrrstöðu líka.
Hvert sjónarhorn á Aventador Superveloce er margslungið samspil vísinda og …
Hvert sjónarhorn á Aventador Superveloce er margslungið samspil vísinda og listar. Afturendinn gefur til kynna að framúrakstur er óráðlegur!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: