Hekla kynnir nýjan Skoda Fabia

Skoda Fabia hinn nýi hefur fengið góðar viðtökur.
Skoda Fabia hinn nýi hefur fengið góðar viðtökur.

Fyrsti fulltrúi nýrrar kynslóðar af Skoda Fabia verður kynntur í húsnæði Heklu við Laugaveg 170 - 174, næstkomandi laugardag, 30. maí milli klukkan 12 og 16.

Skoda Fabia hefur hlotið hin ýmsu verðlaun síðustu mánuði. Hann var valinn bíll ársins hjá WhatCar? og hlaut Red dot verðlaunin fyrir framúrskarandi vöruhönnun. Þar með er hann orðinn sá áttundi úr Skoda-fjölskyldunni til að hljóta þessi eftirsóttu hönnunarverðlaun.

„Glæsileg hönnunin nær niður í minnstu smáatriði og kristallast í skörpum útlínum, þrívíðri lögun og samspili ljóss og skugga. Skoda Fabia stendur vel undir nafninu skemmtilegi bíllinn og hans hefur verið beðið með eftirvæntingu,“ segir í tilkynningu um sýninguna.

„Við hjá Heklu erum afar spennt fyrir því að kynna Skoda Fabia betur fyrir viðskiptavinum okkar. Við erum mjög ánægð með bílinn enda er hann flottur og ferskur og hefur fengið frábærar viðtökur. Þetta er smávaxinn en snarpur borgarbíll sem hentar bæði fyrir ungt fólk sem og fjölskyldufólk sem langar að bæta öðrum bíl á heimilið,“ segir Gestur Benediktsson sölustjóri Skoda hjá Heklu.

Skoda Fabia verður fáanlegur í fimmtán litum auk þess sem velja má mismunandi samsetningar á þaki og felgum, hliðarspeglahulstrum og 16 tommu álfelgum. Hver og einn getur því fundið sína eigin litasamsetningu.

„Þessi ferski fjörkálfur er léttur, nettur og tæknivæddur. Hann er stútfullur af sniðugum lausnum og fullbúinn kemur hann með MirrorLink sem tengir snjallsímann við upplýsinga- og afþreyingakerfi bílsins. Þú einfaldlega stingur símanum í samband og færð umsvifalaust aðgang að öllum búnaði símans í gegnum leiðsögukerfi bílsins og hnappa á mælaborðinu. Með þessu móti hafa viðskiptavinir sama aðgengi að snjallsímanum og þeir hafa að útvarpinu og öðrum búnaði. Með MirrorLink hafa ökumenn augun á veginum og hendur á stýri,“ segir í tilkynningunni.

Skoda Fabia er fáanlegur með sparneytnum bensín- og dísilvélum auk þess sem hann er fáanlegur í langbaks-útfærslu með veglegu skottplássi. Hann mun kosta frá 2.290.000 krónum.

Skoda Fabia hinn nýi fæst meðal annars í langbaksútgáfu.
Skoda Fabia hinn nýi fæst meðal annars í langbaksútgáfu.
mbl.is