Löggildum bílasölum fjölgar

Bílasalinn fær að deila stórri stund með viðskiptavininum enda jafnast …
Bílasalinn fær að deila stórri stund með viðskiptavininum enda jafnast fátt á við að kaupa bíl. mbl.is/Golli

Það var árið 1994 að sett voru lög sem gerðu þá kröfu til seljenda notaðra bíla að þeir hefðu löggildingu ef þeir ætluðu að reka eigin bílasölu.

Dagur Jónasson situr í prófnefnd bifreiðasala og segir hann að með hverju árinu fjölgi þeim sem sitji námskeiðið og þreyti þau próf sem þarf til að fá vottun sem löggildur bílasali.

„Sú breyting hefur orðið til batnaðar síðustu tíu árin eða svo að þeir sem starfa í greininni hafa sóst mjög eftir að fá löggildingu og ekki er óalgengt að á bílasölum sé meirihluti starfsmanna með þessa vottun,“ segir Dagur.

Farið vandlega í reglurnar

Til að fá löggildingu þarf að sækja þriggja vikna námskeið sem kennt er hvert haust hjá Iðunni fræðslusetri. Er þar farið vandlega í saumana á lögum og reglugerðum svo að bílasalinn geti gætt sem best hagsmuna allra þeirra sem koma að kaupum og sölu á notuðum bílum. Dagur segir að bílasalinn þurfi að kunna skil á mörgu varðandi lög og reglugerðir og eins hvíli á honum sú skylda að upplýsa kaupendur um þætti á borð við tjónaferil og eigendaferil og benda viðskiptavinum á að fara með bílinn í ástandsskoðun hjá óháðum aðila þegar svo ber undir. Þá þarf að vera alveg tryggt að gengið sé rétt frá afsali og eigendaskiptum og að hugað sé að atriðum sem varða fjármögnun og skuldir sem hvíla á ökutækinu. Bendir Dagur á að margir starfsmenn bílasala sitji námskeiðið einmitt vegna þess að það sendi viðskiptavinunum skilaboð um vönduð og fagleg vinnubrögð.

Ekki eru gerðar neinar sérstakar forkröfur til að mega sitja löggildingarnámskeiðið og segir Dagur skemmtilegt að sjá hvað hópurinn sé oft fjölbreyttur. „Í seinni tíð er t.d. farið að bera meira á nemendum sem hafa áhuga á greininni en hafa ekki unnið við hana og svo hafa starfsmenn tryggingafélaga og lánastofnana sótt námskeiðið enda er það hluti af rekstri þeirra að þurfa að selja áfram bíla.“

Dagur er einnig framkvæmdastjóri bílasölunnar Bílalands og er á honum að heyra að ágætis árferði sé í greininni. Árin strax eftir kreppu hafi verið krefjandi en salan á notuðum bílum hafi verið að glæðast smátt og smátt. „Bílaleigurnar hafa leikið stórt hlutverk á markaðinum með notaða bíla en núna er smám saman að komast meira jafnvægi á söluna og bílar frá einstaklingum og fyrirtækjum eru farnir að sjást oftar á söluplaninu. Salan dreifist enn nokkuð ójafnt yfir árið og eiga bílarnir það til að safnast upp hjá bílasölunum yfir veturinn en byrja svo að seljast vel með vorinu þannig að plönin eru orðin hálftóm um hásumarið.“

Gefandi vinnudagur

Sjálfur er Dagur hokinn af reynslu og hefur starfað sem bílasali frá árinu 1989, sem var sama ár og Berlínarmúrinn féll og Daníel Ágúst Haraldsson söng „Það sem enginn sér“ í Eurovison. Hefur Dagur lengst af selt notaða bíla en einnig tekið styttri tarnir við sölu nýrra bíla. Hann segir að jafnvel eftir allan þennan tíma sé gaman að mæta í vinnuna á morgnana enda sé starf bílasalans á margan hátt gefandi og fjölbreytt.

„Þetta er fjölbreytt starf þar sem maður hittir margt fólk og góðir sölumenn njóta þess að eiga með því þessa mikilvægu stund þegar tekin er ákvörðun um kaup á bíl fyrir heimilið. Það skiptir litlu hvort bíllinn kostar hálfa milljón eða tíu milljónir, fyrir viðskiptavininn er um mikilvæg viðskipti að ræða, bíllinn hefur verið valinn af kostgæfni og það er hlutverk sölumanna að búa svo um hnúta að hlutirnir gangi upp á réttan hátt.“ ai@mbl.is

Með allt á hreinu

Dagur segir að því fylgi ákveðin áhætta að kaupa notaða bíla án aðkomu löggilts bílasala. Kaupandi og seljandi geti sparað sér söluþóknunina með því að láta viðskiptin fara fram milliliðalaust en ef þeir nýta sér þjónustu bílasalans megi koma í veg fyrir leiðinleg og kostnaðarsöm mistök. „Í beinum viðskiptum er algengast að vandamálin snúi að fjármálahliðinni og svo göllum sem koma upp vegna þess að ástandslýsing seljandans var ekki eins og til stóð, eða að kaupandinn lét undir höfuð leggjast að fara með bílinn í ástandsskoðun áður en gengið var frá kaupunum.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: