Svanur olli umferðarvanda

Svanir vita víst vart upp á sig skömmina.
Svanir vita víst vart upp á sig skömmina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mannfólkinu verður á í messunni enda enginn fullkominn og hið sama má segja um aðrar verur dýraríkisins, alla vega svani.

Þannig ruglaðist einn hinna tígulegu fugla í austurhluta Frakklands síðastliðinn laugardag. Skellti hann sér niður á hraðbrautina A35 milli borganna Colmar og Strasbourg, hélt sig á ystu akrein og var ekki annað að sjá en hann hefði af misgáningi talið veginn vera vatn því hann var rennandi blautur eftir rigningu.

Bílstjórar á ferð urðu að snarhægja ferðina vegna hins óvænta gests og myndaðist því fljótt umferðarhnútur sem teygði sig aftur eftir hraðbrautinni. Bílstjóri einn greip til þess ráðs að stöðva bíl sinn við vegarkant og tókst honum að vísa fuglinum út á neyðarreinina.

Skömmu síðar kom lögregla á vettvang og framhjá armi laganna slapp svanurinn ekki. Var hann gómaður og fluttur niður á bakka Rínarfljóts, en þar hefur hann líklega kunnað betur við sig en á hörðu malbiki hraðbrautarinnar.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: