Til álita sem besta myndskeiðið

Mark Higgins á Subarubílnum á methringnum.
Mark Higgins á Subarubílnum á methringnum.

Á netinu er oft að finna myndskeið tekin innan úr keppnisbílum og geta sum verið afar spennandi að fylgjast með. Til dæmis  metakstur franska ökumannsins Sebatien Loeb á Peugeot upp Pikes Peak tindinn í fyrra, sem var afar taugatrekkjandi að fylgjast með.

Nú er fram komið annað myndskeið sem er ekki síður spennandi þótt nokkuð langt sé. Það sýnir hring breska ökumannsins Mark Higgins í kappaksturshringnum á eynni Mön á Írlandshafi fyrr í sumar. Setti hann met í leiðinni en fregnum fylgir að 80% hringins á þröngum sveitavegum er bensíngjöfin í botni.

Hringurinn er 46 kílómetrar og lagði Higgins, sem er fæddur og uppalinn á Mön, hann á 19:15 mínútum. Jafngildir það 188 km/klst meðalhraða sem hljómar geggjað. Æðir hann gegnum þorp og dreifða byggð á leiðinni á þeim hraða.

Það gefur myndskeiðinu aukið gildi, að inn á því er að finna hjartslátt Higgins og húðhita í rauntíma, svo og togkrafta þá sem á ökumanninn virka í akstrinum. Þá er þar lýsing Higgins á akstrinum, beygju fyrir beygju, brekku eftir brekku.

Þá er bara að kveikja á hátölurunum og fá aksturinn í æð.

mbl.is