Íhuga að flytja út rússneska VW

Lokahönd lögð á VW-bíl í bílsmiðjunni í Kaluga við Moskvu.
Lokahönd lögð á VW-bíl í bílsmiðjunni í Kaluga við Moskvu.

Þýski bílarisinn Volkswagen mun vera að skoða þann möguleika að flytja út bíla sem framleiddir eru í bílsmiðjum fyrirtækisins í Rússlandi.

Með þessu hyggst VW bæta sér upp hrun í bílasölu í Rússlandi, en sala VW þar í landi dróst saman um 44% fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og nam 42.525 eintökum. Heildarmarkaðurinn skrapp saman um 35% og nam 913.181 eintökum á sama tíma, að sögn samtaka evrópskra fyrirtækja með umsvif í Rússandi.

Talsmaður Volkswagen staðfestir að verið sé að skoða það hjá Volkswagen í Rússlandi að flytja út bíla sem smíðaðir eru í bílsmiðjunni í Kaluga, í suðurjaðri Moskvu. Þar eru framleiddir Polo, Tiguan jeppinn og Skoda Rapid, en hægt hefur verið á smíðinni vegna sölusamdráttarins í Rússlandi.

Bílasala VW-samsteypunnar allrar minnkaði um 3,7% í júlí, aðallega vegna veiks markaðar í Kína, Rússlandi og Brasilíu. Hér er um að ræða bíla frá Audi, Porsche, Bentley, Volkswagen, Skoda og Seat. Seldust 792.100 eintök í nýliðnum júlí samanborið við 822.200 eintök í júlí í fyrra.

Rétt eins og er að eiga sér stað í Rússlandi þá hafa bílafyrirtæki hafist handa við að senda bíla sem smíðaðir eru í Kína til Norður-Ameríku vegna aukinnar eftirspurnar eftir bílum þar undanfarna mánuði.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: