Suzuki Vitara frumsýndur

Nýr Suzuki Vitara er hlaðinn tæknibúnaði.
Nýr Suzuki Vitara er hlaðinn tæknibúnaði.

Nýr Suzuki Vitara verður frumsýndur í Suzuki-umboðinu í Skeifunni 17 um helgina. Opið er frá klukkan 12-17 á morgun, laugardag, og frá klukkan 12-16 sunnudag.

„Við kynnum til leiks fjórðu kynslóðina af Vitara, sportjeppa sem stenst nútímakröfur um sparneytni og þægindi í akstri hvort heldur í sveit eða borg.  Vitara kom fyrst á markaðinn fyrir meira en 25 árum, hann er sem fyrr hreinræktaður jeppi sem uppfyllir nútímakröfur um akstursgetu og þægindi,“ segir í tilkynningu frá Suzuki bílum.

Vitara er fyrsti jeppinn á þessu ári sem fær fullt hús stiga í árekstrarprófun Euro NCAP, fimm stjörnur.

Suzuki Vitara kemur með hátæknivæddu 4WD Allgrip fjórhjóladrifskerfi sem býður upp á fjórar mismunandi stillingar þ.e. sjálfvirka stillingu, sportstillingu, snjóstillingu og driflæsingu. Það sem einkennir nýja jeppann er sportleg hönnun yfirbyggingar og léttleiki bílsins.

Þá segir í tilkynningunni, að Vitara komi með ríkulegum staðalbúnaði. Megi þar meðal annars nefna bakkmyndavél, hraðastilli með aðlögun sem á sjálfvirkan hátt stillir af fjarlægð að næsta bíl á undan og brekkuvara sem auðveldar ökumanni að taka af stað upp brekkur.  

Nýr Vitara er hlaðinn tæknibúnaði, fyrir miðju mælaborðs er hágæða, sjö tommu snertiskjár með Mirrorlink snjallsímatengingu. Þá er bíllinn auk þess fáanlegur með leiðsögukerfi, aksturskerfi og öflugu hljómkerfi með stafrænu útvarpi. Vitara státar af leðurklæddu fjölaðgerðastýri með stjórnrofum fyrir hraðastilli, aksturstölvu, hljómtæki, síma og fleira. Stjórntæki eru þannig öll innan seilingar sem stuðlar að auknu öryggi í umferðinni.

Verð á nýjum Vitara er frá 4.480.000 krónum.

mbl.is