Ofurbíll ekur á mannfjölda

Paul Bailey á Porschebílnum sem hafnaði inn í áhorfendahópnum á …
Paul Bailey á Porschebílnum sem hafnaði inn í áhorfendahópnum á bílasýningunni á Möltu.

Auðkýfingur sem tók þátt í bílasýningu á Möltu í gær missti vald á bílnum með þeim afleiðingum að hann hafnaði inni á áhorfendasvæði.

Rúmlega 20 sýningargestir slösuðust, þar af fjórir lífshættulega, er þeir urðu fyrir bílnum, sem var af gerðinni Porsche 918 Spyder. Meðal þeirra mest slösuðu er sex ára stúlka.

Bílasýningin fór fram á aflögðum flugvelli í Hal Farrug á Möltu. Undir stýri bílsins var eigandi hans, breski auðkýfingurinn Paul Bailey. Hlaut hann þung höfuðhögg í slysinu.

Bailey missti stjórn á bílnum í beygju er annað afturhjól bílsins fór út á gras fyrir utan flugbrautarmalbikið, svo sem sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is