Volvo XC90 bíll ársins á Íslandi 2016

Volvo XC90 var kynntur til sögunnar á Spáni snemma á …
Volvo XC90 var kynntur til sögunnar á Spáni snemma á þessu ári og vakti strax verðskuldaða athygli.

Í síðustu viku var tilkynnt um val á Bíl ársins á Íslandi þetta árið en þetta er í þrettánda sinn sem tilkynnt er um valið hér á landi.

Bíllinn sem hlaut Stálstýrið að þessu sinni var Volvo XC90 og var hann vel að sigrinum kominn að mati Bandalags íslenskra bílablaðamanna, eða BÍBB sem stendur að valinu. Að vísu var keppnin mjög spennandi að þessu sinni og stutt á eftir komu þrír Heklubílar, sem voru Golf GTE, Audi Q7 og VW Passat.

Einnig var bryddað upp á þeirri nýbreytni að þessu sinni að velja bíl ársins í flokki umhverfisvænna en til úrslita kepptu 15 bílar í alls fimm flokkum, flokki minni og stærri fólksbíla, flokki jeppa og jepplinga auk flokks umhverfisvænna bíla.

Stóð sig vel yfir heildina

Bílablaðamenn BÍBB reyndu úrslitabílana í heilan dag á endurbyggðri Kvartmílubrautinni sem státar nú af hringakstursbraut. Bílunum eru gefin stig eftir frammistöðu þeirra auk upplýsinga um verð, eyðslu, búnaðar og fjölda annarra þátta. Vinningsbíllinn Volvo XC90 þótti standa sig vel á allflestum sviðum og þar með talið í verði þegar horft er til samkeppnisaðila. Einnig státar hann af nýrri nálgun í innri hönnun og umhverfi bílstjórans. Það sama má segja um vinningshafann í flokki minni fólksbíla en það var Citroën C4 Cactus.

VW Passat sem var hlutskarpastur í flokki stærri fólksbíla, og Mazda CX-3 sem vann jepplingaflokkinn þóttu framúrskarandi akstursbílar. Athygli vakti einnig að bíllinn sem varð í öðru sæti yfir heildina kom úr flokki umhverfisvænna, en VW Golf GTE vann þann flokk með nokkrum yfirburðum. Annars var röðin eins og hér segir:

Flokkur minni fólksbíla:

Citroën C4 Cactus

Mazda2

Skoda Fabia

Flokkur stærri fólksbíla:

VW Passat

Skoda Superb

Ford Mondeo

Flokkur jepplinga:

Mazda CX-3

Renault Kadjar

Nissan X-Trail

Flokkur jeppa:

Volvo XC90

Audi Q7

Land Rover Discovery Sport

Flokkur umhverfisvænnra bíla:

VW Golf GTE

Tesla Model S P85D

VW e-Golf njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: