Vísindalega góður bíll en hörmulegur

Hinn fullkomni Bretabíll, samkvæmt niðurstöðum rannsókna sálfræðiprófessorsins skoska.
Hinn fullkomni Bretabíll, samkvæmt niðurstöðum rannsókna sálfræðiprófessorsins skoska.

Tillaga prófessors í sálfræði við háskólann í Stirling í Skotlandi, Peters Hancocks, að hinum „fullkomna breska bíl“ hefur vakið athygli en þó fallið í fremur grýttan jarðveg. Er það einkum útlitið sem fer fyrir brjóstið á fólki.

Hancock hefur í sjálfu sér engin áform um að berjast fyrir framleiðslu bíls í þeim dúr sem hann hefur dregið upp og segir hér miklu fremur um akademíska æfingu að ræða en tilraun til bílsmíði. Kveðst hann ekki ætla að reyna að troða hugmynd sinni upp á bílaframleiðendur.

Byggt á áliti um 2000 manns

Engum blöðum er þó að fletta um að hér er um vel úthugsaða tillögu að ræða sem byggist á rannsókn þar sem um 2.000 manns komu við sögu. Voru þeir spurðir nokkurra grundvallarspurninga: Hver er uppáhaldsbíllinn þinn? Hvað við bílinn er mest aðlaðandi? Og þar fram eftir götunum.

Eftir að hafa hlaðið inn einum 3.800 tölugögnum áttaði prófessor Hancock sig á því sem þótti hvað mest aðlaðandi við þá bíla sem þátttakendur nefndu. Það væri áreiðanlega fróðleg lesning en hann nýtti listann til að klastra saman mynd og útkoman varð bíll sem hann segir summuna af óskum og þrám neytenda.

Bræðingur úr ýmsum áttum

Niðurstaðan var sú að á framendanum eru Mini Cooper-aðalljós meitluð inn í andlit Aston Martin DB9. Þar fyrir aftan taka við hurðir af Rolls Royce Phantom sem blandast þó heldur illa inn í spegla og yfirbyggingu af Citroën C4 Picasso og þak og rúður Lamborghini Gallardo. Afturendinn er borinn uppi af Triumph Spitfire með áföstum afturljósum af Audi A1.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka