Gríðarleg aukning hjá BMW

BMW 730d.
BMW 730d.

Þýski lúxusbílaframleiðandinn BMW naut mikillar velgengni í nýliðnum októbermánuði. Á meðan markaðurinn dróst saman jók BMW verulega við sig.

Á heimsvísu varð 6,3% söluaukning hjá hinum bæverska bílsmið í október og 4% fyrir merki samsteypunnar í heild, en þeirra á meðal eru Mini og Rolls-Royce.

Þá jókst sala BMW í október í Bretlandi um 14,5% miðað við október í  fyrra - og það á sama tíma og aðeins eins prósents aukning varð á nýskráningum í mánuðinum í heild. 

Stærsti markaður fyrir BMW bíla er í Evrópu. Fyrstu 10 mánuði ársins seldust 816.220 eintök og er aukning BMW á þessum markaði í október 32%, miðað við október 2014. Sóknin er mikil í álfunni sunnanverðri því aukningin varð 12% á Ítalíu og 25% í Portúgal. Fjöldi bíla þar er þó ekki ýkja mikill, 60.000 seldir á Ítalíu á árinu og 12.000 í Portúgal.

Í Mexíkó hefur BMW aukið sölu um 18% á árinu en þar er líka ekki um mikinn eintakafjölda að ræða, eða 14.148. Í Bandaríkjunum fóru 330.000 eintök frá áramótum til októberloka og 34.000 í Kanada.

Í Asíu seldi BMW 561.000 eintök fyrstu 10 mánuðina sem er 4,4% aukning. Til Kína fóru 384.000 bílar, 55.416 til Japans og 44.500 til Suður-Kóreu.

mbl.is